Umferðaröryggisgjald nam 153 milljónum

Í hvert sinn sem farið er með bifreið í ástandsskoðun, bifreið er nýskráð eða eigendaskipti eiga sér stað þarf að greiða umferðaröryggisgjald. Alls voru 153 milljónir kr. sem runnu í þann tekjustofn á síðasta ári. Fækkun í nýskráningum milli ára hefur mest áhrif til lækkunar en á móti vegur líklega að fleiri færðu bíl sinn til ástandsskoðunar á réttum tíma. Þetta kemur fram í Árbók bílgreina 2020.

Þá kemur fram að vanrækslugjöld, sem lögð eru á bíleigendur sem trassa það að fara með bifreiðar sínar í ástandsskoðun drógust saman milli áranna 2018 og 2019. Alls námu tekjur vegna vanrækslugjalda 402 m. kr. og lækkuðu að hlutfalli um 5% samanborið við árið á undan.

Í krónum talið nam lækkunin 21 m. kr. Tvennt getur að jafnaði skýrt lægri vanrækslugjöld: Annars vegar það að fleiri greiði sektina innan mánaðar frá álagningu, en þá er gefinn afsláttur af sektinni, eða hitt, að fleiri láti ástandsskoða bíla sína á réttum tíma. Hið síðarnefnda er auðvitað ódýrasta ráðið.

 Það bar svo við að árið 2019 þurftu færri að greiða vanrækslugjald en árið áður en vanrækslugjöld voru greidd af 31.581 bifreiðum. Fækkunin á milli ára nam 5.965 bílum en hlutfallsleg fækkun var 15,5%.