Umferðarslys sjaldan færri en í fyrra

Það gleðilega er  að gerast þessi árin að umferðarslysum fer jafnt og þétt fækkandi á Íslandi. Á fimm ára tímabilinu 2008-2012 létust 58 í umferðarslysum en á næstu fimm árum áður, 2003-2007, létust 111. Fækkunin milli þessara tímabila nemur 48 prósentum. Þetta kom fram á blaðamannafundi Umferðarstofu og Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra  í Þjóðmenningarhúsinu fyrir stundu. Á fundinum var kynnt ný skýrsla um umferðarslys á Íslandi árið 2012.

http://www.fib.is/myndir/Ommi-slys.jpg
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra .

Árið 2012 var sérstaklega eftirtektarvert því að þá létust níu manns í umferðarslysum en í alþjóðlegum samanburði svarar það til 28 látinna á hverja milljón íbúa. Þetta er meðal þess lægsta sem gerist í heiminum. Athyglisvert er einnig að ekkert banaslysanna varð rakið til ölvunar.

Slysum þar sem 17-20 ára ökumenn áttu hlut að máli hefur fækkað mjög mikið og sérstaklega þó frá árinu 2007 þegar ótímabundið akstursbann var sett á þá ungu ökumenn sem höfðu orðið sér út um fjóra punkta í ökuferilsskrá og/eða verið sviptir ökuréttindum vegna umferðarbrota. Þessir ökumenn eru með þessum aðgerðum teknir úr umferð og verða að sækja sérstakt námskeið og endurtaka síðan ökupróf til að öðlast ökuréttindi á ný. Svo virðist sem þessi aðgerð hafi skilað mjög miklu því að í fyrra voru slys þar sem þessi aldurshópur kom við sögu, þau fæstu nokkru sinni.

Þegar rýnt er í slysatölur síðustu tíu ára sést að margar tölur ársins 2012 eru þær lægstu um langan tíma og allar eru þær undir meðaltali sl. tíu ára. Ekki er síst athyglisvert að slys á börnum í umferðinni hafa aldrei verið færri en árið 2012 frá því að slysagagnagrunnur Umferðarstofu varð til árið 1986, og sömu sögu er að segja um slys á gangandi vegfarendum.

„Þetta er að þakka sameiginlegu átaki margra aðila eins og t.d. Umferðarstofu, Félags íslenskra bifreiðaeigenda og löggæslunnar.,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í samtali við FÍB eftir fundinn, aðspurður um hugsanlegar ástæður þess gleðilega viðsnúnings sem nú væri greinilegur.

Hann sagði að starf allra aðila sem láta sig umferðaröryggi varða, hvatning, ósérhlífni og áhugi hefði skilað þessum árangri og ætti eftir að skila meiru ef haldið verður áfram í sama anda. En einu mætti aldrei gleyma: Hversu góðir sem vegirnir verða og bílarnir þá séu það alltaf einstaklingarnir sjálfir sem allt veltur á. „Meðan við þreytumst ekki á því að hvetja hvert annað og minna á samábyrgð okkar get ég ekki annað en verið bjartsýnn,“ sagði innanríkisráðherra.