Umferðarslysafaraldurinn og vegahönnun og viðhald

 Banaslys í umferðinni það sem af er árinu eru orðin 10 talsins. Allt árið í fyrra létu níu manns lífið í umferðarslysum og árið 2010 létust sjö, sem taldist óvenju lág tala, enda þótt sérhvert glatað mannslíf sé alltaf of mikið.

Mikil slysahrina hefur gengið yfir undanfarið. Sl. laugardag lést maður í hörðum árekstri á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Þann 7.  ágúst lést maður í árekstri sendibíls og vörubíls á Suðurlandsvegi skammt frá Kjartansstöðum austan við Selfoss. Tveimur dögum áður, á frídegi verslunarmanna, létust tvær stúlkur á Suðurlandsvegi við Hrífunes. Þetta eru þau banaslys að undanförnu sem flestum eru ferskust í minni.

En umferðarslysin sem orðið hafa að undanförnu eru verulega fleiri en þau sem hér hafa verið nefnd, og misalvarleg þótt mannslíf hafi bjargast. Flest umferðarslys má rekja til einhverskonar mistaka. Og stundum leiða minniháttar yfirsjónir í akstri til hræðilegra afleiðinga vegna þess að eitthvað í sjálfum veginum, viðhaldi hans og hönnun var ekki sem skyldi og magnaði afleiðingarnar.   

Bryndís Fanney Harðardóttir sveitarstjórnarmaður í Vík gerði þetta síðastnefnda að umtalsefni í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær, mánudag 12. ágúst. Hún minnti tæpitungulaust á ábyrgð allra þeirra sem að vegagerð og vegalagningu koma, að huga fyrst og fremst að öryggi þeirra sem nota vegina. Hún sagði að upp úr 1960 hefðu menn gert sér grein fyrir því að visst öryggissvæði þyrfti meðfram vegum til að tryggja það að ef bílar færu útaf, rækjust þeir ekki á lífshættulega hluti eins og stórgrýti, kletta og gjótur eða manngerða háskahluti með hrikalegum afleiðingum. Með þessa vitneskju væri hins vegar farið nú eins og hún sé ekki til.

Bryndís Fanney nefndi í þessu samhengi nýja veginn um Eldhraun sem var lagður 1994. Umhverfissjónarmið réðu því að ekkert öryggissvæði var gert meðfram þessum nýja vegi. Því réðu svokölluð umhverfissjónarmið. Menn vildu „vernda“ Eldhraunið.

Það var einmitt á þessum vegi að mánudaginn 5. ágúst fór bíll út af. Að sögn heimildarmanns sem kom að slysinu hefur bíllinn verið á talsverðum hraða þegar hann fór út af veginum og lenti fyrst á hraunkletti, tókst síðan á loft og valt og endasentist all-langa leið um hraunið uns hann stöðvaðist og eldur varð laus í honum. Tvær stúlkur, farþegar í bílnum, köstuðust út úr honum í slysinu og létust báðar.

Bryndís nefndi ennfremur hinn nýja Suðurstrandarveg. Meðfram honum væri heldur ekkert öryggissvæði. Sama væri um nýjan veg út í Dyrhólaey. Hann væri mjög mjór og ef bíll veltur út af honum, veltur hann út í stórgrýti. Það væru hræðileg og sorgleg mistök að ganga svona frá nýjum vegum og jafnframt að láta viðhald og endurbætur í vegakerfinu sitja á hakanum. Rekja mætti fjölda slysa til þessa hvors tveggja.

Nú væri svo komið að ganga yrði skýrt frá því að skylt sé að virða öryggissjónarmið þegar vegir eru hannaðir og lagðir og eldri endurbættir og að öryggissvæði meðfram vegum, sérstaklega nýjum vegum, verði aldrei minna en 10 metrar til hvorrar handar. „Það á ekki að líðast að slegið sé af öryggiskröfum. Við eigum að meta mannslíf framar en náttúruna enda þótt við séum náttúruverndarsinnar,“ sagði Bryndís Fanney.

Hún sagði að svo virtist sem náttúruverndarsjónarmið vegi miklu þyngra en umferðaröryggismál þegar unnið væri að skipulagi samgangna og vegalögnum. Að þessari skipulagsvinnu komi ríkið, sveitarfélög, Vegagerðin og samtök eins og Landvernd og hverskonar náttúruverndarfélög, sem fjalla um vernd náttúrunnar þegar vegalagning er ráðgerð. Hins vegar sé varla nokkur aðili sem fjalli um sjálft mannslífið og svo sé komið að vegakerfið er ekki nægjanlega öruggt vegna þessa og vegna lélegs viðhalds og slakrar umhirðu.