Umferðarslysin óskaplega dýr

Umferðarslys kosta samfélög gríðarlegar upphæðir eða sem nemur 2-3 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu. En hvað kostar hvert mannslíf sem glatast í umferðarslysi? Í flestum löndum Evrópu er leitast við að verðmeta slíkt og í Danmörku hafa niðurstöðutölurnar farið hækkandi ár frá ári. Samkvæmt nýjustu útreikningum sem gerðir hafa verið fyrir danska samgönguráðuneytið kostar hvert dauðaslys í umferðinni samfélagið 17,3 milljónir DKR eða 356,2 milljónir ísl. króna. Frá þessu er greint í Motor, tímariti FDM í Danmörku. FDM er systurfélag FÍB.

Sömu útreikningar sýna að meðalkostnaður á hvern þann sem slasast alvarlega í umferðarslysi er um 62 milljónir ísl. króna og hvert minniháttar slysatilfelli kostar að meðaltali 9,3 milljónir ísl. króna.

Þessar gríðarlegu upphæðir eru taldar vera raunhæfar enda eru þær lagðar til grundvallar útreikningum á hagkvæmni hverskonar framkvæmda í danska vegakerfinu, hvort heldur er um að ræða nýja vegi eða viðhald og breytingar á eldri vegum.

Þeir þættir sem liggja til grundvallar útreikningunum eru:

A: Kostnaður vegna lögreglu og björgunarliða.

B: Kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna þjónustu lækna og hjúkrunarliðs.

C: Vinnu- og framleiðslutap.

D: Eignatjón.

E: Velferðartjón (Velfærdstab).

Síðasttaldi liðurinn; velferðartjón er lang stærsti liðurinn en undir hann falla atriði eins og tilfinningaleg og efnaleg röskun á högum aðstandenda hins látna eða hinna slösuðu, vinnu- og tekjutap, breyttar forsendur til tekjuöflunar og rýrari lífsgæði o.fl. Af þeim 17,3 milljónum DKR sem hvert dauðaslys í Danmörku reiknast á, reiknast velferðartjónin nema 15,7 milljónum af þeirri upphæð. Það eru  rúmar 323 milljónir ísl. kr.

http://www.fib.is/myndir/LaraMargret.jpg
Lára Margrét
Ragnarsdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir hagfræðingur og fyrrverandi alþingismaður gerði á níunda áratuginum svipaða útreikninga og þá sem Danir hafa hér gert til að meta kostnað af umferðarslysum. Hún sagði í samtali við fréttavef FÍB að þessar tölur Dananna væru áþekkar þeim niðurstöðum sem hún komst að á sínum tíma. Tölurnar væru þó við fyrstu sýn síst of háar, heldur ef til vill í lægra lagi þegar litið væri til þess hversu víðtækar afleiðingar umferðarslysanna væru fyrir fjölskyldur og börn fórnarlamba slysanna og fyrir samfélagið sem heild.