Slysum fækkaði og hraðinn lækkaði hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra

Mikill þungi var lagður í umferðaröryggismál hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra á liðnu ári. Sérstök umferðardeild var sett á fót innan embættisins sem hafði það að megin markmiði að ná niður umferðarhraða í umdæminu og fækka þar með umferðarslysum. Nú liggur niðurstaða ársins fyrir og er ánægjulegt frá því að segja að mjög vel tókst til, mikil fjölgun í kærðum umferðalagabrotum og veruleg fækkun umferðarslysa sem hvorugt á sér fordæmi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Alls fjölgaði kærðum umferðarlagabrotum úr 3054 árið 2017 í 7332 árið 2018. Kærum vegna hraðaaksturs fjölgaði á sama tíma úr 2797 í 6874. Til en frekari samanburðar voru kærð hraðaakstursbrot árið 2016 1243 og árið 2015 811.

Ef skoðaðar eru tölur yfir umferðaróhöpp er ljóst að þetta aukna eftirlit hefur skilað sér í fækkun slysa. Árið 2017 voru umferðarslys í umdæminu 171 en árið 2018 fækkaði þeim um tæp 26% eða í 136.

Aukinn sýnileiki lögreglu á þjóðvegum í umdæminu auk öflugs hraðaeftirlits hefur skilað sér í auknu umferðaröryggi líkt og að var stefnt.

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur tekið ákvörðun um að efla þetta eftirlit en frekar á árinu 2019 og hefur lögreglumönnum í umferðardeild embættisins verið fjölgað.  Fram kemur að það sé von embættisins að hægt verði að ná enn betri árangri í fækkun umferðarslysa á þessu ári heldur en á liðnum árum.  

Þessi árangur lögreglunnar á Norðurlandi er mjög athyglisverður og staðfestir mikilvægi sýnilegrar löggæslu.