Umferðarundur við Geirsgötu - myndband

Lok lok og lás og grænt er ljósið?
Lok lok og lás og grænt er ljósið?

Eins og vegfarendur hafa tekið eftir þá hafa lengi staðið yfir framkvæmdir vegna uppbyggingar á lóðum milli Tryggvagötu og Hörpu í Reykjavík.  Á framkvæmdatímanum hafa verið umtalsverðar umferðartafir á Sæbraut, Kalkofnsvegi, Geirsgötu og við Lækjargötu. Hluti þessara framkvæmda tengdist byggingu nýs bílakjallara undir nýja Geirsgötu og þá var umferðinni beint tímabundið um hjáleið á Geirsgötu.

Í nóvember 2017 var opnað fyrir umferð um Geirsgötu um nýtt vegstæði sem því miður er þrengra og erfiðara yfirferðar en fyrri vegtenging.  Þessi hönnun veldur vonbrigðum þar sem umferð hefur jafnt og þétt verið að aukast á þessu svæði. Reynsla þeirra sem aka reglulega um svæðið er ekki í samræmi við lýsingar Reykjavíkurborgar um að þessi breyting gatna skili sér í bættu umferðarflæði. 

50% lengri ferðatími í bíl á framkvæmdatímanum

Það hefur vakið athygli hversu ófagleg umferðarstjórnunin á framkvæmdasvæðinu hefur verið um langan tíma. Gangandi umferð hefur ekki verið komið í örugga farvegi með tilheyrandi hættu fyrir óvarða vegfarendur.  Fólk sem ekur reglulega um þetta svæði hefur mátt sætta sig við allt að 50% lengri ferðatíma í bíl á framkvæmdatímanum.  Þessi aukni ferðatími eykur útlosun óæskilegra og mengandi efna í Kvosinni og kostnað við rekstur bíla. Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögum hefur tjónum fjölgað á svæðinu síðustu misserin.  Lengri ferðatími dregur úr samverustundum fjölskyldna samhliða auknum kostnaði við flutninga og ferðir.

Framkvæmdum er ekki lokið þannig að enn er tækifæri fyrir hönnuði og ábyrgðaraðila að bæta umferðarflæðið.  Best hefði verið að fara með vegtengingarnar við Hörpu frá Kalkofnsvegi að Geirsgötu í veggöng líkt verðlaunahönnun Hörpu og fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

Auka umferðarljós stöðva umferð að óþörfu – 9,8 klukkustundir á sólarhring

Umferðarstjórnendur hafa sett niður tvenn umferðarljós á Geirsgötu á stuttum kafla við framkvæmdasvæðið við Austurbakka næst Hörpu.  Þessi umferðarljós gefa frá sér ljósmerki allan sólarhringinn, sjö daga vikunnar.  Ljósin stöðva umferð á Geirsgötu í austur og vestur á tveimur stöðum.  Enginn skynjari er á ljósunum þannig að umferð er einnig stöðvuð með reglulegu millibili þegar engin vinna er á byggingasvæðinu s.s. á kvöldin og um helgar.  Til hvers? 

Skammt vestan við þessi ,,framkvæmdaljós“ eru gangbrautarljós og rétt austan við þau eru ný umferðarljós við gatnamót Geirsgötu, Lækjargötu og Kalkofnsvegar.  Á um 200 metra kafla við Geirsgötu eru því fern umferðarljós sem eru ekki samhæfð eða með stýringu. Allt eykur þetta tafatíma og mengun. Fulltrúi FÍB átti leið um svæðið síðastliðinn sunnudag milli kl. 13.00 og 14.00 þá logaði ljósið á framkvæmdavitunum fyrir umferð um Geirsgötu í um 35 sekúndur og logaði síðan um 25 sekúndur fyrir mögulega umferð frá framkvæmdasvæðinu.  Á þessum tíma sem engin umferð var um framkvæmdasvæðið var umferðin stöðvuð í 41% af tímanum að óþörfu sem gerir um 9,8 klukkustundir á sólarhring.

Á meðan fulltrúi FÍB var á svæðinu var hann vitni að atburði þar sem engu mátti muna að aftanákeyrsla yrði við rautt ljós á framkvæmdavita.

Það er til búnaður sem hægt er að nota til ljósastýringar þegar umferð er að koma og fara frá athafnasvæðinu sem er margfalt ódýrari en sá kostnaður sem vegfarendur þurfa að bera vegna þess að þeir þurfa að stöðva og síðan taka af stað vegna tilgangslausrar ljósastýringar sem aftur eykur áhættu vegna árekstra, eykur mengun og tafir.  Það þarf ekki djúpa verkfræðilega þekkingu til að átta sig á að þarna hefur verið kastað til hendinni við umferðarstjórnum öllum til skaða og ama. Það getur ekki verið að þetta sé meðvituð aðgerð með þann tilgang að breyta umferðarhegðun vegfarenda með girðingum.

Það er aldrei hægt að komast hjá einhverjum óþægindum fyrir vegfarendur þegar stórframkvæmd er í gangi. Með vönduðum vinnubrögðum og góðu skipulagi er hægt að draga úr óþægindum og samfélagslegum kostnaði. Það er sjálfsögð krafa borgaranna að umferðarskipulagið við  Geirsgötuna verði bætt. 


Smella á mynd til að stækka