Umferðin á Hringvegi eykst

Umferðin í janúarmánuði reyndist 5,4 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra og því hefur umferðin á Hringvegi í þessum mánuði aldrei verið meiri. Umferðin jókst mest um Vesturland. Mest er ekið á föstudögum. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Talsverð aukning varð á umferð um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í nýliðnum janúar miðað við sama mánuð á síðasta ári en umferðin jókst um 5,4%.  Nýtt met var því slegið í janúarumferð á Hringvegi ef marka má áðurnefnda lykilteljara.  Umferðin fór núna vel yfir 60 þúsund bíla múrinn og mældist rúmlega 62 þús ökutæki á sólarhring, samtals fyrir alla staðina.  

Mest jókst umferðin um Vesturland eða um 9,9% en minnst um Austurland eða um 2,8%.

Hvað einstaka talningastaði varðar þá jókst umferðin mest á talningastað undir Hafnarfjalli eða um 12,0% en minnst varð aukningin um Hringveg á Mýrdalssandi eða 0,3%. 

Umferðin í nýliðnum mánuði reyndist mest á föstudögum en minnst á þriðjudögum eins og gjarnan er á þjóðvegum úti á landi.

Hlutfallslega jókst umferðin mest á sunnudögum eða um 17,1% en 6,2% samdráttur varð í umferð á laugardögum.