Langmesti samdráttur sem mælst hefur

Umferðin á Hringveginum árið 2020 dróst saman um 13,6 prósent miðað við árið 2019, þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur. Hann er tveimur og hálfu sinnum stærri en sá sem mældist á milli áranna 2010 og 2011. Umferðin í desember dróst saman um 7,3 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, dróst svipað saman og umferðin á höfuðborgarsvæðínu eða um 7,3%.  Mest dróst umferð saman á Suðurlandi eða um tæp 22% en minnst, utan höfuðborgarsvæðis, um Norðurland eða um 12%. Ekki hefur mælst minni umferð í desember á Hringvegi síðan árið 2016.

Af einstaka stöðum þá varð mestur samdráttur um mælisnið á Mýrdalssandi eða tæplega 72% samdráttur en minnst, utan höfuðborgarsvæðis, um mælsnið í Kræklingahlíð norðan Akureyrar eða 4,5% samdráttur.

Þá kemur fram að umferðin á síðasta ári dróst saman í öllum vikudögum en mest á sunnudögum eða um rúmlega 18% en minnst á þriðjudögum eða um tæp 11%.  Eins og vænta mátti er mest ekið á föstudögum en örlítið óvænna að minnst var ekið á laugardögum, því alla jafna hafa þriðjudagar þá stöðu. 

Nú liggur það fyrir að umferðin á Hringvegi dróst saman um 13,6%, yfir umrædd mælisnið. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu er þetta langstærsti samdráttur frá því að þessar mælingar hófust eða rúmlega tveimur og hálfu sinnum stærri en á milli áranna 2010 og 2011.

Mest dróst umferð saman um mælisnið á Austurlandi eða um tæplega 29% en minnst, utan höfuðborgarsvæðis, um Vesturland eða um tæplega 18%.