Umhverfismerkingar nýrra bíla eru álitamál

Víðast hvar í Evrópu tíðkast að merkja ýmis heimilistæki í verslunum út frá því hversu vel þau nýta orkuna. Hið sama er nú einnig gert með nýja bíla. Þetta er til þess að neytendur geti séð í sjónhendingu orkunýtni og orkuþörf tækjanna og valið sér þannig ísskáp, eldavél og auðvitað bíl eftir þessum umhverfisáhrifum. Til að auðvelda fólki að lesa úr þessum upplýsingum er umhverfismildin táknuð með litum. Sterk-grænn litur er að sjálfsögðu sá sem táknar mestu umhverfismildina. Hann fölnar síðan og skerpist síðan í hinum endanum þar sem skærrauður táknar minnstu umhverfismildina.


 

Grundvallarhugsunin er þannig sú að þeir bílar sem minnstu eldsneyti eyða eru umhverfismildastir vegna þess og einnig vegna þess að þeir gefa frá sér minnstan CO2 útblástur. Allt á þetta að koma fram í þeim upplýsingum sem framleiðendur bíla gefa upp og byggjast á staðlaðri mælingu sem er sú sama fyrir alla bíla. Ásamt litum er umhverfismildin einnig táknuð með tölum. Eyðslan er gefin upp í lítrum á hundrað kílómetra eða hversu marga kílómetra bíllinn dregur á hverjum lítra. Útblásturinn er svo gefinn upp í grömmum á hvern kílómetra. Allt á þetta að vera frekar auðskilið, þangað til kannski nú:

Fyrir þrýsting frá bílaiðnaðinum hefur þýska ríkisstjórnin nú ákveðið að skipta bílum upp í nokkurskonar nýtniflokka þar sem þyngdin skal líka skipta máli. Bílum er því skipað í nýtniflokkana m.a. eftir eyðslu á hvert kíló.

Þýska bílatímaritið AutoBild fer vel ofan í saumana á þessum reiknikúnstum með því bera saman tvö farartæki; annarsvegar VW Golf 1,4  Trendline sem er rúmt tonn að þyngd, og Leopard skriðdreka, 62 tonn að þyngd, og reikna þá inn í nýtniflokka út frá eyðslu þeirra og þyngd. Og viti menn: Golfinn og skriðdrekinn hafna í sama eldsneytisnýtniflokki sem er E.

Allar eru þessar reiknikúnstir sem bílaframleiðendum hefur tekist að fá þýsku ríkisstjórnina til að innleiða talsvert flóknar. Þyngd farartækis og CO2 útblástur er uppreiknað hvort á móti öðru með þeim árangri að neytandinn stendur skilningsvana frammi fyrir niðurstöðunni. En Golfinn og skriðdrekinn eru ekki eina skrýtna dæmið. Útreikningarnir sýna nefnilega að Porsche Cayenne og Fiat 500 hafna nefnilega í sama flokki. Báðir eru vissulega góðir hvor á sína vísu. Porsche Cayenne gefur frá sér um 200 g af CO2 á ekinn kílómetra sem vissulega er ekki mikið fyrir svo stóran og aflmikinn bíl. En Fiat 500 gefur frá sér minna en 100 grömm á kílómetrann af CO2 þannig að mörgum finnst erfitt að skilja hversvegna þessir tveir bílar séu saman í umhverfisflokki.

http://www.fib.is/myndir/Eco-merking1.jpg

Matthias Wissmann er framkvæmdastjóri sambands þýskra bílaframleiðenda. Hann skýrir þetta út fyrir AutoBIld  á þann hátt að þetta sé eins og í hnefaleikum: Þar sé keppendum deilt í þyngdarflokka. Samtök neytenda og umhverfissinna í Þýskalandi segja að með þessu sé botninn dottinn úr því að merkja bíla eftir umhverfisáhrifum. Merkingarnar eigi, m.a. með litunum að sýna á einfaldan hátt eyðslu og útblástur bíla. Merkingakerfið sé orðið vita gagnslaust fyrir neytendur þegar allt í einu 90 tonna þungur skriðdreki sé kominn í sama umhverfisflokk og VW Golf 1,4 sem einungis vegur rúmt tonn. 

Nú hafa bæði þýskir stjórnmálamenn og umhverfisverndarsinnar lagt til málamiðlun á þann veg að reglunum verði breytt þannig að enginn einasti bíll sem gefur frá sér meira en 130 grömm af CO2 á kílómetrann geti komist hærra en í C-flokk, algerlega óháð því hversu þungur hann er.

Þótt þetta kunni að hljóma sanngjarnt þá er í því fólgin mismunun gagnvart minnstu bílunum, ekki síst frá Ítalíu og Frakklandi. Smábílar frá t.d. Fiat gætu auðveldlega lent í B eða C flokki þrátt fyrir að eyða minna og pústa út minna CO2 en meðalstór eða stór bíll sem þó hafnar í A-flokki. (Gerist reyndar nú þegar). Engin formleg mótmæli hafa þó komið heldur vilja menn fá ACEA, sem eru samtök evrópskra bílaframleiðenda, til að beita sér fyrir samræmdu merkingakerfi í allri Evrópu.