Umhverfismildir bílar

Þeir sem fá sér svokallaða umhverfismilda bíla njóta margskonar fríðinda, eins og afslátta af sköttum og gjöldum af bílunum. Að auki þurfa þeir ekki að greiða í stöðumæla í borgum og mega aka inn á svæði miðborga þar sem bílum sem ekki uppfylla skilyrði skilgreininga um umhverfismildi, er meinaður aðgangur. Á Evrópska efnahagssvæðinu fyrirfinnast opinberar skilgreiningar á því hvað telst vera umhverfismildur bíll. Þær eru einskonar rammi en einstökum ríkjum er síðan heimilt að setja að einhverju leyti eigin reglur innan hans.

Meginreglan um hvað telst vera umhverfismildur bíll hefur hingað til verið sú að þeir bílar teljast umhverfismildir sem gefa ekki meira frá sé af CO2 en sem svarar 130 grömmum á hvern ekinn kílómetra. Þessar reglur hafa nú verið endurskoðaðar og nýjar reglur taka gildi í áföngum fram til ársins 2015. Þær eru talsvert flóknari en eldri reglurnar vegna þess að framvegis mun þyngd bílsins skipta miklu máli þegar umhverfismildin er reiknuð út eftir sérstakri formúlu. Þessi nýja reikniregla tekur gildi eftir rúmt ár. Samkvæmt henni mun Porsche Cayenne Hybrid reiknast umhverfismildur en Citroen C1, sem er 900 kíló að þyngd, ekki.

Nýju reikniregluna er að finna í ES-tilskipun 443/2009. Samkvæmt henni skulu nýir bílar gefa frá sér að meðaltali allt að 130 grömm af CO2 á hvern ekinn kílómetra eftir árið 2015. Aðlögun að þessu marki skal hefjast 2012. En eftir 2015 skal stefnt enn hærra (lægra) því 2020 vilja menn að meðalútblástur CO2 fari niður í 95 grömm á kílómetrann.

Þegar nýja skilgreiningin á því hvað má kallast umhverfismildur bíll gengur í gildi eftir um það bil ár, breytist margt. Samkvæmt núgildandi reglum þá er um það bil 40% allra seldra nýrra fólksbíla í Evrópu umhverfismildir. En þegar svo nýja reiknireglan gengur í gildi verða hinir umhverfismildu einungis milli 15% og 20%.

Nýja formúlan notast nokkurnveginn þannig að sett er inn í hana þyngd bílsins og CO2 útblástur pr. km dísil/bensín/annað eldsneyti. (CO2 útblásturinn reiknas mis mikill eftir því hverskonar eldsneyti bíllinn brennir).  Reikniformúlan virkar síðan þannig að Porsche Cayenne Hybrid sem er 2.315 kíló að þyngd lendir réttu megin við strikið og reiknast sem umhverfismildur þrátt fyrir CO2 útblástur upp á 193 g á km.