UNIMOG-torfærubílasafn


http://www.fib.is/myndir/Unimog1.jpg
Úr nýja Unimog-safninu í Gaggenau.

Framleiðslu á þýska torfærubílnum Unimog var hætt þann 2. ágúst 2002. Á hvítasunnudag voru nákvæmlega 55 ár frá því að fyrsti fjöldaframleiddi Unimog bíllinn rann af færibandinu í Gaggenau og í því tilefni var Unimog safnið formlega opna_.
Fyrsti Unimog bíllinn var eiginlega nær því að vera traktor en bíll því að hámarkshraðinn var einungis 50 km á klst. Vélaraflið var einungis 25 hö. og farartækið var sérstaklega hugsað með þarfir landbúnaðar, skógræktar, skógarhöggs og hverskonar útivinnu fyrir augum. Nafnið á farartækinu felur þetta í sér því að það er stytting á Das Universal-Motor-Gerät (Alhliða vélknúna farartækið). Upphafsmaðurinn var flugvélaverkfræðingur hjá Daimler Benz, Albert Friedrich að nafni.
Albert Friedrich hóf strax eftir stríðið, að hanna farartæki sem ekki átti (né mátti) vera til hernaðarþarfa heldur til friðsamlegra nota. Það skyldi komast yfir stokka og steina og það hefur Unimog getað ágætlega alla tíð. Allt frá upphafi hafa því Unimog bílar verið mjög hábyggðir, með mjög slaglanga og mjúka fjöðrun og læst mismunadrif að framan og aftan og milli hásinga sömuleiðis. Þá var á Unimog aflúrtak og gert ráð fyrir því að vð hann mætti tengja hverskonar tæki og búnað.
Fyrsta frumgerðin leit dagsins ljós árið 1946 og það sama ár voru byggðir allmargir Unimogbílar. Eftirspurn varð strax veruleg og voru bílar byggðir í borginni Göpingen eftir pöntunum fyrstu árin eða þar til eiginleg fjöldaframleiðsla hófst í Gaggenau árið 1951. Frumgerð Unimog númer fimm er ennþá til í heimabænum Gaggenau. Hún hefur verið í notkun framundir þetta og er enn í fínu lagi og hefur nú fengið heiðurssess í nýja safninu.
Unimog fyrirfinnst í allskyns útgáfum og sérbúinn til alls kyns verkefna. Hann fyrirfinnst sem herbíll, sem götusópari eða snjóruðningsbíll eða landbúnaðar og skógarhöggs- og -ræktartæki með alls konar aukabúnaði, sem ferðabíll og húsbíll og raunar allt sem nöfnum tjáir að nefna. Unimog bílar eru allsstaðar í heiminum, eða allt frá Alaska til Góðvonarhöfða og á Íslandi.
http://www.fib.is/myndir/Unimog2.jpghttp://www.fib.is/myndir/Unimog3.jpg

Fyrsti Unimoginn - og sá síðasti.