Uppbygging innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur

Undirritað hefur verið samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur.Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar.

20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Þrír þættir samkomulagsins

  • 30 hleðslur við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar
  • 60 hleðslur á landi borgarinnar víðsvegar um borgina
  • 120 milljóna króna sjóður til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði

Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á 30 fyrirfram ákveðnum stöðum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þeir sjást á meðfylgjandi uppdrætti.

Í tilkynningu kemur fram að á allt að 60 stöðum að auki – 20 á ári næstu þrjú árin – verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á borgarlandi með það að markmiði að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Óskað verður eftir tillögum íbúa um staðsetningar. Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið. 

Loks munu OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar betur. OR og Veitur eru reiðubúin til samsvarandi samstarfs við önnur sveitarfélög á starfssvæði þeirra.

Útboð á hleðslubúnaði

Hleðslustæðin munu verða kyrfilega merkt og eingöngu ætluð rafbílum. Uppsetning og rekstur sjálfs hleðslubúnaðarins, sem settur verður upp fyrir almenning, verða boðin út. Gert er ráð fyrir að hleðslan verði seld á þessum bílastæðum.

Reykjavíkurborg leggur til stæðin, Veitur leggja til heimtaugar og OR fé í styrktarsjóðinn. Gert er ráð fyrir að hámarksstyrkur til húsfélags nemi 1,5 milljónum króna og verði að hámarki 2/3 hlutar kostnaðar við að koma hleðslum upp við fjölbýlishúsið. Samkomulagið felur í sér að þriggja manna samstarfsnefnd samningsaðila heldur utan um verkefnið.