Uppgefið frostþol rúðuvökva stenst illa

Uppgefið frostþol rúðuvökva getur verið umtalsvert minna en innihaldslýsing segir til um. FÍB fékk rannsóknastofuna Fjölver til að mæla frostþol sjö tegunda rúðuvökva sem allar höfðu verið keyptar í tengslum við verðkönnun á þessum efnum. Niðurstaðan er sú að af þessum sjö tegundum reyndist ein hafa uppgefið frostþol og ein vera frostþolnari en innihaldslýsingin gaf til kynna.

   Fimm reyndust hins vegar hafa minna frostþol sem nam frá tveimur til 11 gráðum. Sá vökvi með mesta frávikið sýndi er frá Rekstrarvörum. Á umbúðunum stendur -21gráða en í smáu letri stendur að vökvinn kristallist við -15 gráður en frjósi við -21 gráðu.  Það sem skiptir máli er hvenær rúðuvökvi kristallast því eftir það er hann ónothæfur.  Rúðuvökvi er öryggisvara og það á ekki afvegaleiða neytendur með misvísandi innihaldslýsingu.  Almennur neytandi ályktar að frostþol RV rúðuvökvans sé í samræmi við stóru töluna á umbúðunum -21 gráða en reyndist vera -10 gráður. Næst mesta frávikið reyndist vera í vökvanum frá fjölþjóðlegu verslanakeðjunni Bauhaus. Hann er sagður þola –21 gráðu frost en fraus við -12 gráður.

   Þegar verðkönnunin var gerð var rúðuvökvinn á tilboði í Verslun Bauhaus og það fleytti honum upp í fyrsta sætið miðað við það að uppgefið frostþol stæðist. Þegar verðkönnunin var gerð lá ekki annað fyrir en að innihaldslýsingar stæðust. En þegar rökstuddur grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu í þeim efnum var ákveðið að taka stikkprufur á frostþoli. Vegna óviðráðanlegra atvika dróst að ljúka rannsókninni og lauk henni ekki fyrr en FÍB blaðið vara komið í prentun en einni síðu haldið opinni fyrir niðurstöðurnar. Það er ástæðan fyrir því að vökvarnir frá Rekstrarvörum og Bauhaus eru ofar í verðkönnuninni en þeir í raun ættu að vera að teknu tilliti til raunverulegs frostþols þeirra.

   Það er síðan umhugsunarefni hverskonar hugsun og viðskiptasiðferði er að baki því að reyna að hlunnfara neytendur með því að gefa þeim rangar upplýsingar um innihald, eðli og eiginleika vara, eins og hér sýnir sig að gert hefur verið. Það hlýtur að teljast ámælisvert að stór alþjóðleg verslunarkeðja eins og Bauhaus geri slíkt og spurning hvort þetta rúðuvökvamál sé eina dæmið hjá Bauhaus. FÍB hefur að því tilefni sent systurfélögum sínum í Evrópu fréttina af þessu máli og spurt fyrir um það hvort svipuð dæmi séu þekkt hjá þeim.

   Frostþolsrannsóknin var gerð þannig að tekin voru sýnishorn af hverri vökvategund og sett í dauðhreinsuð sýnishornaglös sem síðan voru merkt með númerum þannig að rannsakendur gátu ekki séð hvaðan hvert sýnishorn var. Sýnin voru tekin og merkt í votta viðurvist.

   Í greininni um uppgefið frostþol í nýja FÍB Blaðinu var farið rangt með uppgefið frostþol Rúðuvökva frá Mjöll Frigg sem Hagkaup (og fleiri) selja.  Á umbúðum stendur -18 gráður en í fréttinni var sagt að vökvinn væri með uppgefið frostþol -20 gráður og var þá farið línuvillt í könnuninni því Hagkaup átti einnig rúðuvökva í verðkönnuninni sem var með -20 gráðu frostþol.  Eftir stendur að Rúðvökvinn sem Hagkaup selur frá Mjöll Frigg kristallast við -12 gráður sem er -6 gráðum undir því sem neytandinn telur sig vera að kaupa.

Mælingin segir til um hvenær fyrstu kristallar myndast í vökvanum við kælingu við aðstæður samkvæmt ASTM D2386 Freezing Point. Sýnin eru því enn á vökvaformi að mestu leyti við fyrstu myndun kristalla.

Ítarlega er fjallað um málið í FÍB Blaðinu 1. tbl.  

http://www.fib.is/myndir/ruduvokvimynd200.jpg

 Almennur neytandi ályktar að frostþol RV rúðuvökvans sé í samræmi við stóru töluna á umbúðunum -21 gráða en reyndist vera -10 gráður.

http://www.fib.is/myndir/RVruduvokvi-21merking.jpg