Uppsöfnuð viðhaldsþörf á bilinu 80-85 milljarðar

,,Ástand á vegum og götum er óvenju slæmt þetta vorið. Vegir hafa komið illa undan erfiðum vetri en megin ástæðuna fyrir þessu ástandi megi rekja að einhverju leyti til uppsöfnunar og viðhaldsþarfa eftir mikinn niðurskurð í kjölfar bankahrunsins,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, meðal annars í Kastljósþætti á RÚV í gærkvöldi þar sem samgöngumál voru til umræðu.

Hátt í 800 tilkynningar um skemmdir á vegum

Fram kom í þættinum að Vegagerðin meti uppsafnaða viðhaldsþörf á bilinu 80-85 milljarða til viðbótar 15.5 milljörðum á ári sem þurfi til viðhalds. Árleg framlög til viðhalds eru í kringum 12 milljarða sem dugi skammt. Svipaðar upphæðir gilda um viðhald á vegum og götum sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.

,,Viðhaldsþörfin er víða mjög mikil. Á sama tíma eru nokkur sveitarfélögin fjárvana og því ekki í stakk búin að mæta þessum fjárframlögum sem þarf til viðhaldsins,“ sagði Runólfur. FÍB heldur úti veggátt, vegbot.is, þar sem vegfarendur geta sent inn tilkynningar um skemmdir á vegum. Alls hafa borist inn rúmlega hátt í 800 tilkynningar frá áramótum, langflestar af höfuðuborgarsvæðinu, en á sjötta tug af landsbyggðinni.

,,Við gerum auknar kröfur um að ekkki sé verið að skapa umhverfisskaða af umferðinni. Liður í því er að hreinsa göturnar og göngustíga. Það skiptir gríðarlegu máli að sópa götur eins og kostur er. Víða eru niðurbrot þar sem gömul slitlög brotna hraðar niður,“ sagði Runólfur Ólafsson.

Stíga þarf gætilega til jarðar í umræðunni um veggjöld

Samgöngumál fá mikið vægi í umfjöllun í aðdraganda sveitarstjórnakosninga sem verða á laugardag. Borgarlína hefur vigtað þungt í umræðunni og ljóst að skiptar skoðanir er um framkvæmd og skipulagningu hennar. Öllum er ljóst að grípa þarf til aðgerða og framkvæmda til að bæta samgöngukerfið á höfuðuborgarsvæðinu. Mikilvægt er að allar raddir og skoðanir verða að vera upp á borðum og það þurfa stjórnvöld að hafa í huga. Rætt hefur verið um leggja veggjöld til að mæta fjárþörfinni við lagningu Borgarlínu. Stíga þarf gætilega til jarðar í þeim efnum. FÍB hefur margsinnis bent á að veggjöld eru aukin skattbyrði á bifreiðaeigendur og ekkert annað en viðbót við þær greiðslur sem umferðin skilar nú þegar.

Ýmsar tækninýjungar eiga eftir að breyta samgöngumynstri almennings

,,Við kjósum að sem flestir valkostir séu í boði þegar samgöngur eru annars vegar. Það hefur aftur á móti verið gagnrýnt að einblítt sem um of á eitthvað sem eigi að koma í framtíðinni og á sama tíma er verið að skera niður. Bæta þurfi flæði í umferðinni og reyna eins og kostur er að leysa úr umferðartöppum. Ýmsar tækninýjungar sem eru að ryðja sér til rúms munu breyta samgöngumynstri almennings eins og með tilkomu deilibíla. Leggja verði þunga áherslu á að tryggja öryggi allra vegfarenda, sérstaklega gangandi- og hjólandi fólks, en mörg slys hafa orðið hjá notendum hjólskútna,“ sagði Runólfur Ólafsson framkvæmdatjóri FÍB.

Umfjöllum Kastljóss um samgöngumál má nálgast hér,