Úr 100 kílóum í 2.500

Þróun dísilvéla í fólksbíla hefur verið mjög stórstíg undanfarin ár og eru þær nú miklu öflugri miðað við stærð, miklu sparneytnari og miklu sveigjanlegri en þær hafa nokkru sinni verið áður. Margir hafa talið að ekki verði mikið lengra komist með dísilvélina og nú sé komin röðin að bensínvélinni. Vissulega er byrjað að endurbæta hana á svipaðan hátt en menn eru hvergi nærri hættir með að þróa dísilvélina.

http://www.fib.is/myndir/Disilstadreyndir.jpg

Fram kemur í frétt frá tæknifyrirtækinu mikla, Bosch í Þýskalandi, að endimörkum í þróun dísilvélarinnar sé hvergi nærri náð enn. Á næsta áratug megi vænta nýrra dísilvéla með miklu hærri þrýstingi á eldsneytisinnsprautuninni en nú er, eða allt að tveimur tonnum á fersentimetra. Það þýði það að dísilvélarnar verða enn sparneytnari en þær eru nú og mun minna mengandi. Það er nefnilega innsprautunarþrýstingurinn og rétta innsprautunaraugnablikið sem mestu ræður um sparneytni og umhverfismildi vélanna. Og því hærri sem þrýstingurinn er, þeim mun öflugri og vinnslumeiri verða vélarnar.

Dr. Markus Heyn forstjóri dísildeildar Bosch segir í fréttatilkynningunni að langflestar fólksbíladísilvélar sem framleiddar verða eftir áratug verði með innsprautunarkerfi sem vinni á 2000 kílóa þrýstingi á fersentimetra. 3000 kílóa kerfi séu hreint ekki óhugsandi en þau verði fyrst og fremst nýtt í  keppnisbílum.

Til að þessi gríðarlega háþrýstu innsprautunarkerfi geri fullt gagn verða vélarnar sjálfar að vera mjög góðar og þéttar og túrbínur þeirra afar öflugar. Til að fullt gagn sé að hinum gríðarlega innsprautunarþrýstingi verður nefnilega að vera sem allra allra mest af samanþjöppuðu glóandi heitu lofti til staðar í brunahólfinu á því örstutta augnabliki þegar olían sprautast inn í það með tveggja tonna þrýstingi og sprengingin verður sem gefur vélinni afl.

Margir muna eftir háværum, titrandi og reykjandi fólksbíladísilvélum á síðari helmingi síðustu aldar. Þær voru vissulega ekki allar til þess fallnar að gefa bílunum sportlega aksturseiginleika eins og nútíma dísilvélarnar. Það breyttist allt með samrásarinnsprautunarkerfunum rétt fyrir 1980. Síðan hafa dísilvélarnar orðið stöðugt öflugri og sparneytnari.

Olíuverkin frá Bosch  náðu lengi vel ekki 100 kílóa innsprautunarþrýstingi en 1922 hófst þróunarvinna við að auka þrýstinginn og koma honum upp í 100 kílóin. Síðan hefur þróunin verið  nokkurnveginn svona hjá Bosch:

100 kg: Vinna hefst  1922 við olíuverk sem eiga að skila 100 kg innsprautunarþrýstingi.
Yfir 100 kg: MAN vörubíll -1927.
300 kg: VE olíuverk í VW Golf D -1975.
900 kg: Axial-piston olíuverk í Audi 100 TDI – 1989.
1.500-1.750 kg: VP 44 Radial-piston olíuverk í Opel Vectra, Audi A6 2.5 TDI, BMW 320d 1996-1998.
1.350 kg: Samrásarinnsprautun (Common Rail) í Alfa-Romeo 156 2.4 JTD 1997.
2.050 kg: Nýtt kerfi í VW Passat TDI  1998. 

Yfir 2.000 kg: Nýtt kerfi sem kom fyrst fram í Audi A6 3.0 TDI 2003/-4
2.500 kg: CRS3-25 samrásarinnsprautunarkerfið. Verður í mörgum dísilfólksbílum frá og með 2014.