Úr 55 í 85 mílur á klukkustund

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin IIHS (Insurance Institute for Highway Safety) vinnur um þessar mundir að því að hækka hámarkshraða á hraðbrautum Bandaríkjanna. Upp í 85 mílur á klst. eða 135 km hraða. Þetta er gert að vel athuguðu máli. Vegirnir verða að vera þannig úr garði gerðir að þeir teljist duga til þessa. Þá telur stofnunin að nútímabílar séu nægilega traustir í akstri og öruggir til að þetta sé algerlega óhætt.

Fyrsti 85 mílna vegarkaflinn var opnaður á dögunum en hann er  á hraðbrautinni  milli borganna Austin og San Antonio í Texas. Þetta er nú sá vegarkafli sem hæsta leyfða hámarkshraðann í Bandaríkjunum hefur. Í olíukreppunum á áttunda áratuginum færðu flest ríkin í Bandaríkjunum niður hámarkshraða niður í 55 mílur eða tæplega 90 km á klst. En frá 1995 hafa 35 ríkjanna hækkað hann upp í 65 mílur á klst.

Adrian Lund talsmaður IIHS var í samtali við CNBC sjónvarpsstöðina um 85 mílna hámarkshraðamörkin. Þar sagði hann m.a. að bílarnir væru hannaðir og byggðir til þess að aka hratt og fólk vilji aka greitt og yfirvöld einstakra ríkja og sveitarfélaga væru hlynnt því að auka hraðann. Nútímabílar væru þannig úr garði gerðir að það er þægilegt að aka þeim á 130-140 km hraða og jafnvel á 150 og ýmis öryggisbúnaður eins og læsivarðir hemlar, skrikvörn, radarsjón og sjálfvirk hemlun hafi gert þá öruggari og þægilegri í akstri. Mun átaka- og áhættuminna sé að aka nýju bílunum á 140-150 en var að aka tíu ára gömlu bílunum nýjum  á 120-130 km hraða.

Þótt meiri hraði þýði vissulega að ökumenn hafi minni tíma til að bregðast við hættum og árekstrar verði á meiri hraða en áður, þá hefur látnum í umferðarslysum í Bandaríkjunum fækkað þrátt fyrir hækkaðan hámarkshraða. Dauðaslysatíðnin á vegunum er nú sú sama og hún var árið 1949 þrátt fyrir að umferð sé nú verulega meiri og hraðari en þá.

Þekktur bandarískur bílablaðamaður sem heitir Philip LeBeau telur að hámarkshraðamörkin muni fara hækkandi enda séu engin tengsl milli hærri hámarkshraða og slysatíðni. Hann bendir á að í Montana ríki hafi á 10. áratuginum, engin lögbundin hámarkshraðamörk verið í gildi á vegum úti að degi til. Í umferðarlögum gilti einungis almenn varúðarregla sem sagði að ökumenn skyldu aka skynsamlega og varlega. Adrian Lund tekur undir þetta með blaðamanninum og segir jafnframt að þegar hámarkshraði sé settur við 135 km á klst. þá sé það vitað mál að margir, ef ekki flestir muni aka hraðar en það. Því þá ekki að setja hámarkið enn hærra, eða við 140 eða 150 km á klst. þar sem aðstæður leyfa. Talsmaður bandarískra bíleigendasamtaka segir að það sé almennur misskilningur að aukinn hraði á vegum þýði að slysum fjölgi. Ekki sé hægt að benda á neinar tölulegar upplýsingar og tölfræði sem staðfesti það. Það sé því einboðið að lögbundin hámarkshraðamörk eigi eftir að hækka.