Úr 90 í 130 km hraða

Nýja ríkisstjórnin í Noregi ætlar að hækka hámarkshraðamörk á hraðbrautum Noregs úr 90 km í 130 km á klst. 90 km markið sem gilt hefur til þessa er lægsti leyfði hámarkshraði á hraðbrautum í Evrópu og með því lægsta í heiminum. Þessar breytingar eru tíundaðar í stjórnarsáttmála flokkanna Hægri og  Framfaraflokksins sem standa saman að ríkisstjórninni. Í honum stendur að markmiðið sé að norsku hraðbrautirnar verði samanburðarhæfar við slíka vegi í þeim löndum sem Noregur ber sig helst saman við.

http://www.fib.is/myndir/Norgespeed.jpg

Breytingin verður þó ekki gerð í einu vetfangi heldur verður byrjað á því að yfirfara hraðbrautir milli nokkurra þéttbýlustu svæða landsins og gera þær þannig úr garði að þær teljist geta flutt umferðina á 130 km hraða án þess að slysahætta vaxi. Þetta verður gert m.a. með því að koma upp miðjuskiptingum til að hindra að umferð í eina átt villist inn í umferðina sem á móti kemur. Þvínæst verða brautirnar öryggismetnar og hámarkshraðinn hækkaður í áföngum og byrjað á að setja hann í 110 á öruggustu köflunum.

Ekki er talið líklegt að slysum fjölgi við það að hækka hámarkshraðann, heldur þvert á móti að þeim fækki. Það er í það minnsta reynsla Dana sem frá árinu 2004 hafa verið og eru að hækka hámarkið úr 110 í 130 km á klst. Þar hefur alvarlegum slysum fækkað við breytinguna. Jafnframt hefur akstur fólks batnað og virðing fyrir hámarkshraðamörkunum vaxið.

Þýskaland er eina Evrópulandið þar sem hámarkshraðamörk eru engin á hraðbrautunum. En þrátt fyrir þessa meginreglu eru hámarkshraðamörk vissulega á mörgum hraðbrautaköflum, einkum þó við borgir og þéttbýl svæði þar sem umferð er þung og inn- og útkeyrslur margar. Þar eru merki sem tilgreina leyfðan hámarkshraða. Þá eru mjög víða meðfram flestum hraðbrautunum leiðbeiningarmerki sem segja að æskilegur hraði sé 130.

Á Íslandi er engin hraðbraut. Hinn tvöfaldaði hluti Reykjanesbrautarinnar gæti flokkast sem slík, ef frá henni yrði gengið á þann hátt sem Norðmenn hyggjast nú gera við sínar hraðbrautir. EF það hins vegar yrði gert, væri varla neitt því til fyrirstöðu að hækka hámarshraðann á brautinni upp í 130 km á klst.