Útlendingar kvarta undan íslenskum bílaleigum

Ferðamálavefurinn Túristi.is greinir frá því að stærsti hluti þeirra erinda sem berast Evrópsku neytendaaðstoðinni ECC á Íslandi, lúta að ferðamálum. Oftast eru það erlendir viðskiptavinir íslenskra bílaleiga sem eru ósáttir – yfirleitt vegna þess að bílaleiga heldur því fram að bíll sé skemmdur og tekur síðan af kreditkorti viðskipavinarins upphæð fyrir viðgerð á hinni meintu skemmd.

Túristi.is greinir frá því að helmingur þeirra mála sem koma á borð Evrópsku neytendaaðstoðarinnar, ECC, hér á landi tengjast bílaleigum. Hlutfallið er þó mismunandi á milli ára. Í flestum tilfellum er um að ræða erlenda ferðamenn sem hafa tekið bíl á leigu hér á landi. Íslendingar leiti einnig til skrifstofunnar vegna viðskipta við bílaleigur út í heimi en þau tilfelli eru hins vegar töluvert færri samkvæmt upplýsingum sem Túristi.is hefur frá skrifstofu ECC sem rekin er af Neytendasamtökunum. 

Evrópska neytendaaðstoðin eða ECC hefur það hlutverk að aðstoða neytendur sem greinir á við seljendur vöru og þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu utan eigin heimalands og telja sig ekki hafa fengið það sem þeir greiddu fyrir, eða verið hlunnfarna á einhvern hátt. Aðstoðin er neytendum að kostnaðarlausu. Í fyrra bárust 106 erindi til íslensku skrifstofunnar og þar af voru kvörtunarmálin 42 að því er kemur frá á vefnum Túristi.is.