Vaðlaheiðargöng

 Erfitt hefur verið ráða í það af fréttum fjölmiðla hvað fram fór á opnum fundi efnahags- og samgöngunefndar alþingis um Vaðlaheiðargöng í byrjun vikunnar og hversvegna. Með þessari stuttu samantekt skal leitast við að varpa ljósi á það.

 Í hnotskurn snýst Vaðlaheiðargangamálið um það að taka væntanleg Vaðlaheiðargöng undan því valdi alþingis að raða þeim ásamt öðrum samgönguframkvæmdum í þjóðvegakerfinu upp í mikilvægisröð í samgönguáætlun og fela hlutafélagi gerð þeirra strax í stað þess að bíða eftir að röðin komi að þeim í samgönguáætlun. Ætlunin er að fela hlutafélagi gerð ganganna og að umferð um þau standi síðan undir kostnaðinum við gerð þeirra. Og hér stendur hnífurinn í kúnni fyrst og fremst.

Þrátt fyrir mjög bjartsýnar áætlanir um hagkvæmni þessara ganga frá upphafi fengust lífeyrissjóðirnir ekki til að lána til þeirra fé. Töldu það of áhættusamt. Þá var gripið til þess ráðs að krefjast þess að fjárvana ríkissjóður eftir afleiðingar efnahagshrunsins aflaði fjárins (tæki lán) og ábyrgðist það og skilvísa endurgreiðslu þess alfarið.

 Mörgum Norðlendingum, ekki síst á Akureyri,  sem og þingmönnum kjördæmisins sem nærri búa, er mjög áfram um að sem fyrst verði byrjað á göngunum. Sérstakt félag; Vaðlaheiðargöng hf hefur verið stofnað og í stjórn þess situr meira að segja alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra. Á vegum þessa félags vegum hafa verið gerðar bjartsýnar áætlanir um hagkvæmni Vaðlaheiðarganga sem alls óvíst er að standast munu napran veruleikann þegar að skuldadögum kemur. Um þetta snýst í raun ágreiningurinn sem uppi er um þessa framkvæmd og var í raun megininntak fyrrnefnds fundar.

 En þrátt fyrir að málið sé enn óútkljáð enn þá virðist samt í raun búið að taka ákvörðun um að hefjast handa við framkvæmdir og verktilboð liggja þegar fyrir. Fjármálaráðaherra sem jafnframt er þingmaður kjördæmsins, er þess mjög fýsandi að drifið verði í að fara að bora.  Hann sat fyrir svörum nefndarinnar í þriðja og síðasta hluta umrædds fundar og sagði þá m.a. að þetta geti orðið sjálfbær framkvæmd og fullur greiðsluvilji væntanlegra notenda muni skapast vegna styttingar (16 km) vegalengdarinnar. Allar áætlanir væru afskaplega traustar og sæi hann því ekkert hindra lokasamninga um fjármögnun verkefnisins og myndi hann óska staðfestingar í fjáraukalögum um það og þar með afla heimildar alþingis til að klára framkvæmdalánamálið.

 Í fyrsta hluta fundarins hafði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra örstutta framsögu og svaraði síðan spurningum sem nefndarmenn lögðu fyrir hann  Í öðrum hluta komu til fundarins fulltrúar hlutafélagsins Vaðlaheiðargöng sem eru að 51% í eigu Vegagerðarinnar og 49% í eigu norðlenska félagsins Greið leið. Ennfremur komu inn á fundinn þau Ólafía Ásgeirsdóttir og Runólfur Ólafsson fulltrúar FÍB. Báðir aðilar höfðu örstutta framsögu um sín sjónarmið og sátu síðan fyrir svörum, Fulltrúar FÍB ítrekuðu sín sjónarmið í málinu og ítrekuðu vel rökstudda gagnrýni félagsins á áætlanir og hagkvæmnisforsendur sem m.a. má sjá hér.

 Runólfur benti m.a. á að í nýjustu áætlunum gangamanna væru óvissuþættir mjög varlega áætlaðir eða 7% framúrkeyrsla. Reynslan í jarðgangagerð á Íslandi sýni hins vegar allt annað, eða framúrkeyrslu um tugi prósenta t.d. við Héðinsfjarðargöng og Óshlíðargöng. Þá væri reksturskostnaður v. innheimtu veggjalda mjög vanáætlaður. Til samanburðar benti hann á að í Hvalfarðargöngum er kostnaðurinn á ári 273 millj en væri áætlaður einungis 75 milljónir hjá Vaðlaheiðargöngum hf.. 

Hann benti á að um Hvalfjarðargöng fara árlega 2 millj. bílar. Meðaltekjur á hvern bíl væru um 500 krónur.  Áætluð umferð um Vaðlaheiðargöng væri 500 þúsund bílar fyrsta árið og áætlaðar tekjur af hverjum bíl væru 1000 kr. Greiðsluvilji bílstjóra í Vaðlaheiðargöngum væri því áætlaður tvöfalt meiri en í Hvalfjarðargöngum þrátt fyrir að vegstytting um Hvalfjarðargöng sé þreföld á við Vaðlaheiði. Þetta gæti tæpast talist raunhæf áætlun nema etv. þá daga sem færð er slæm og veður vond.  Ennfremur væri það staðreynd að vetrarumferð um Víkurskarð er einungis 20% af sumarumferðinni. Sjá má nánar athugasemdir FÍB hér.

Þór Saari alþingismaður sagði í framhaldinu að í hans augum gengi fjármögnun Vaðlaheiðarganga ekki upp. Það væri útilokað og þyrfti ekki að ræða frekar. Ennfremur hefði ríkisábyrgðarsjóður neitað að meta þetta. Kostnaður myndi lenda á skattborgurum og málið allt væri glórulaust bjartsýnisrugl.

 Mörður Árnason alþingismaður setti ýmsa fyrirvara við áætlanir gangamanna og hversu raunhæfar þær væru á fundinum sl. þriðjudag. Hann kvaðst ekki sjá samhengi í umræðu um atvinnulíf og tengsl Akureyrar og Þingeyjarsýslu sem eflast myndu við Vaðlaheiðargöng. Þá mótmælti hann öllum dylgjum um að þeir sem óskuðu skýringa á málinu væru þar með markaðir sem andstæðingar eða sérstakir hatursmenn Akureyringa og landsbyggðarfólks. Forsenda stjórnvalda hlyti að vera sú að ef taka ætti þessa framkvæmd út fyrir sviga samgönguáætlunar, að hún yrði fjárhagslega sjálfbær og mætti ekki kosta krónu af almannafé. Hann spurði þvínæst fulltrúa MP banka sem þátt átti í nýjustu útgáfu hagkvæmnisáætlana gangamanna, að fyrst MP banki teldi málið svo vænlegt, hvers vegna bankinn tæki ekki bara fjármögnunina að sér. Þá spurði hann hvort samanburður milli Hvalfjarðarganga og Vaðlaheiðarganga væri yfirleitt raunhæfur.

 Þar sem um er að ræða miklar fjárhæðir sem skattborgarar þessa lands munu fá að ábyrgjast, varðar það miklu að allar fáanlegar og sem réttastar upplýsingar liggi fyrir áður en ráðist er í framkvæmdir. Sú krafa FÍB um að óháður eða óháðir aðilar taki út allar hliðar þessa máls hlýtur því að vera eðlileg. Félagið hefur gagnrýnt alvarlegar veilur í áætlunum gangamanna sem fallið hefur ýmsum misvel í geð eins og sjá og heyra mátti í umræðu um fjáraukalög á alþingi síðdegis í dag, fimmtudaginn 10. nóv. Það hlýtur því að vera fyllilega eðlileg krafa að fram fari óháð skoðun málsins frá öllum hliðum, ekki síst ef einhver alvara er að baki orðum  margra stjórnmálamanna og annarra í kjölfar efnahagshrunsins, að opin og gagnsæ stjórnsýsla sé ekki bara æskileg heldur nauðsynleg.

 Ljóst má vera að Vaðlaheiðargangamálið er mikið hitamál hjá forsvarsmönnum þess. ekki síst fyrrverandi samgönguráðherra og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöng hf. Greinilegt er að hann telur að FÍB hafi tafið málið og hindrað og lætur ekkert tækifæri ónotað til að koma því á framfæri, nú síðast úr ræðustóli á alþingi þar sem hann jós úr skálum reiði sinnar í garð félagsins og forsvarsmanna þess. Sjálfsagt munu einhverjir lesa út úr því áhuga þingmannsins á opinni og gegnsærri stjórnsýslu meðan aðrir fagna því hversu maðurinn er afgerandi og ódeigur talsmaður sinna kjósenda. Sínum augum lítur hver á silfrið.