Vaðlaheiðargöng - hvað sparast?

Vegatollar undir Vaðlaheiðargöng þurfa að vera á bilinu 1.000 til 1.300 kr. fyrir hverja ferð að jafnaði, til að standa undir afborgunum lána og vaxtagreiðslum vegna gangagerðarinnar. Þetta eru tvöfalt hærri vegatollar en í Hvalfjarðargöngum. Jafnframt þarf 90-100% umferðar sem ella færi um Víkurskarð að fara um göngin, jafnt sumar sem vetur. Aðeins þannig nægja tekjur af vegatollum til að standa undir kostnaði við gerð Vaðlaheiðarganga.

 

http://www.fib.is/myndir/Eyjafj_lofti.jpg
Eyjafjörðurinn úr lofti. Vaðlaheiði á hægri hönd.
http://www.fib.is/myndir/Heildarkostn_Vadla.jpg

Tímasparnaður af því að fara Vaðlaheiðargöng í stað Víkurskarðs er 9 mínútur og leiðin styttist um 16 km. Bíll sem eyðir 12 lítrum á hundraðið fer með um 2 lítra af bensíni á þeirri vegalengd. Val bílstjórans stendur því um að spara rúmlega 400 kr. í bensínkostnaði á móti tvöfalt til þrefalt hærri upphæð fyrir að fara um göngin.

 Er þetta reiknidæmi sem gengur upp? Mesta umferðin um Víkurskarð er að sumarlagi. Er líklega að í sumarblíðunni vilji fólk borga fyrir að fara um Vaðlaheiðargöng frekar en njóta útsýnis yfir Eyjafjörðinn af Víkurskarðinu? Er 400 kr. og 9 mínútna sparnaðurinn þúsund króna virði?

 Útreikningar á vegatollum

Reyndar gera áætlanir þeirra sem vilja Vaðlaheiðargöng ráð fyrir eitthvað lægri vegatollum, eða um 800 kr. Þær áætlanir miðast við að nánast engin umferð fari um Víkurskarð eftir að göngin opna, óháð árstíma. Jafnframt er gert ráð fyrir verulegri aukningu á umferð vegna ganganna og lægstu vöxtum á lánunum.

 En jafnvel þó öll umferðin fari um Vaðlaheiðargöng, þá þarf meðal vegatollurinn að vera í kringum 1.100 kr. með vsk. fyrstu árin miðað við eftirfarandi forsendur:

  • Framkvæmdakostnaður verði 7,5 milljarðar án virðisaukaskatts.
  • Verðtryggt lán til 30 ára með 5% vöxtum.
  • Meðalumferð 1.200 bílar á dag fyrsta árið sem vegatollar eru innheimtir.
  • Rekstrarkostnaður 75 millj. kr. á ári (helmingur af rekstrarkostnaði Hvalfjarðarganga).

 Til samanburðar má geta þess að meðalgjald allra bíla sem fara um Hvalfjarðargöng er 485 kr. Verð fyrir staka ferð er 900 kr., stórir bílar borga nokkur þúsund krónur en lægsta afsláttargjald fyrir fólksbíl er 260 kr.

 Aðstandendur Vaðlaheiðarganga gera sér reyndar vonir um að fá verðtryggð lán innanlands með lægri vöxtum en þetta, eða allt niður í 3,5%. Við það gæti meðalgjaldið nálgast 800 kr. Engu að síður yrði það 65% hærra en meðalgjaldið í Hvalfjarðargöngum.

 Engar líkur á hagstæðum vaxtakjörum

Aðilar í fjármálaheiminum sem FÍB hefur rætt við segja hins vegar að engar líkur séu á að Vaðlaheiðargöng fáist fjármögnuð á svo lágum vöxtum. Ástæðan er sú að töluverð framkvæmdaáhætta fylgir gangagerðinni, auk óvissu um heimtur af vegatollum. Þeir sem leggja fjármagn í slíkt verkefni vilja fá hærri ávöxtun til að mæta áhættunni. Bent hefur verið á að Hvalfjarðargöng voru fjármögnuð með 9,2% vöxtum. Ef fjármagna þyrfti Vaðlaheiðargöng með slíkum vöxtum þyrfti vegatollurinn að fara upp í 1.900 kr. að meðaltali.

 Eins og kunnugt er slitnaði upp úr samningaviðræðum ríkisins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun á 30 milljarða króna vegaframkvæmdum á suðvesturhorni landsins ásamt Vaðlaheiðargöngum. Samkvæmt heimildum FÍB sættu fulltrúar lífeyrissjóðanna sig ekki við boð ríkisins um 3,5% vexti, allra síst af Vaðlaheiðargöngum, sem þeir töldu áhættusömustu framkvæmdina og með mestu tekjuóvissuna.

 Áfram verður haldið með umfjöllun FÍB um Vaðlaheiðargöng á þessum vettvangi á morgun.