Vaðlaheiðargöngin - 4. grein

Í áætlunum um Vaðlaheiðargöng er gert ráð fyrir að nánast öll umferð á milli landshlutanna fari um göngin í stað Víkurskarðs. Þannig hafa menn reiknað út að nægilega mikil umferð geti skilað nægilega miklum vegatollum til að standa undir gangagerðinni.

Hins vegar liggur ekkert fyrir um að vegfarendur muni velja ávallt velja göngin umfram Víkurskarð. Reyndar má draga stórlega í efa að svo verði, sérstaklega að sumarlagi þegar umferð er mest á þessari leið. Hins vegar er raunhæft að áætla að stór hluti ferðalanga kjósi göngin umfram Víkurskarð þegar færð er slæm að vetrarlagi.

Bjartsýnar umferðaráætlanir

http://www.fib.is/myndir/Aaetlun-gangamanna.jpg
http://www.fib.is/myndir/Bjartsyn-aaetl-FIB.jpg
Áætlanir talsmanna Vaðlaheiðarganga
nyrðra gera ráð fyrir 1.600 bíla umferð
á dag. Miðað við allar forsendur hlýtur
það að teljast nokkuð vel í lagt.

Í áætlunum Greiðrar leiðar ehf., sem er samstarfsvettvangur fyrir Vaðlaheiðargöng, er gert ráð fyrir að umferð aukist töluvert á þessari leið eftir að göngin opna. Síðustu tvö ár hafa 1.200 bílar farið að meðaltali á degi hverjum um Víkurskarð. Greið leið áætlar að umferð um göngin verði rúmlega 1.400 bílar á dag við opnun ganganna eftir þrjú ár og aukist fljótlega í 1.600 bíla. Eftir það verði 2% árlegur vöxtur í bílaumferð.

Ekki er ólíklegt að bílaumferð á þessu svæði aukist með tilkomu ganganna, til dæmis með fólksfjölgun, auknum viðskiptum, betri vetrarfærð, fjölgun ferðamanna og þar fram eftir götunum. En setja verður stórt spurningamerki við þær áætlanir að nánast öll umferðin fari um Vaðlaheiðargöng og þannig fáist nægar tekjur af vegatollum til að standa undir stofnkostnaði vegna þeirra.

Umferðin á þessu svæði er einfaldlega of lítil til að bera þessa framkvæmd ein og sér. Vaðlaheiðargöng kosta litlu minna en Hvalfjarðargöng, en umferð um þau getur í mesta lagi orðið 20-25% af þeirri umferð sem fer undir Hvalfjörðinn.

Minni umferð, hærri vegatollar

Eins og FÍB hefur reiknað út, þarf vegatollur að vera að meðaltali nálægt 1.100 kr. til að Vaðlaheiðargöng borgi sig, miðað við að allir fari um göngin. Ef færri fara um göngin, eins og búast má við að sumarlagi, þá þarf vegatollurinn að hækka vegna þess að færri borga hann. En ef vegatollurinn hækkar, þá fækkar viðskiptavinum enn frekar – og þá þarf að hækka vegatollinn enn meira.

Ljóst er að vegatollurinn má ekki fara yfir ákveðin mörk, annars fer enginn um göngin nema í verstu vetrarfærð. Vegatollurinn þarf að miðast við greiðsluvilja viðskiptavina en ekki tekjuþörf eigenda ganganna.

Upphæðin lokkar ekki

Afar hæpið er að vegfarendur vilji að jafnaði borga 1.100 til 1.300 kr. til að spara sér 9 mínútna akstur og 400 kr. bensínkostnað, nema þegar færðin er slæm um Víkurskarð.

Sú reynsla sem til er um greiðsluvilja fólks í þessum efnum er í Hvalfjarðargöngum. Þegar þau voru tekin í notkun árið 1998 kostaði stök ferð tæpar tvö þúsund krónur á verðlagi dagsins í dag. Það fældi fólk ekki frá því að nota göngin, enda margs konar afsláttarkjör í gangi, sem flestir nýttu sér. Núna er verð fyrir staka ferð 900 kr. en 10 ferða afsláttarkort kostar 5.800 kr. sem gerir 580 kr. per ferð. Meðal vegatollur um Hvalfjarðargöng var 485 kr. á síðasta rekstrarári. Göngin stytta leiðina um rúma 40 km, eða um hálftíma akstur.

Stök ferð á 2.000 kr.

Vaðlaheiðargöng stytta akstur og tíma um þriðjung af því sem Hvalfjarðargöng bjóða. Vegatollurinn þarf samt að vera a.m.k. tvöfalt hærri til að gerð þeirra borgi sig.

Til að geta veitt afslætti fyrir þá sem fara oft um Vaðlaheiðargöng þyrfti verð fyrir staka ferð að vera töluvert hærra en meðalverð. Ef tekið er mið af hlutföllunum í Hvalfjarðargöngum, þar sem stök ferð kostar 900 kr. og meðalverð er 485 kr., þá þyrfti stök ferð um Vaðlaheiðargöng að kosta í kringum 2.000 kr. Allir hljóta að sjá að með slíkri verðlagningu fer enginn um göngin nema að Víkurskarð sé ófært – sem gerist nokkrum sinnum á ári.

Áfram verður haldið með umfjöllun FÍB um Vaðlaheiðargöng á þessum vettvangi á morgun.