Vaðlaheiðargöngin og vandamálin

Vinna við borun Vaðlaheiðarganga liggur enn niðri vegna vatnsflaumsins sem stöðvaði borunina austurenda ganganna 17. apríl sl.. Áður hafði borunarvinna stöðvast vestan megin frá vegna heits vatns sem þar tók að renna. Talsmenn ganganna eru þó bjartsýnir ef marka má fréttir og telja sig geta aftur byrjað að vinna við gangagerðina um miðjan mánuðinn eða eftir fáa daga.

Full ástæða er hins vegar til að ætla að tvísýnt sé um það og satt að segja ekki mjög líklegt að það takist á fáeinum dögum að hemja vatnsflauminn sem streymir inn í göngin að austanverðu, tæma þau og byrja að bora á ný. Sjá mynd Vegagerðarinnar hér.

Menn gera nú sem fyrr furðu lítið úr þeim vanda sem þessi umdeilda framkvæmd á. Þvert á móti. Þingmenn kjördæmisins koma fram í fjölmiðlum og ítreka meinta nauðsyn ganganna fyrirhuguðu og Steingrímur J. Sigfússon sagði nýlega að þau muni þegar fram líða stundir teljast vera ein merkasta framkvæmd í íslenskum samgöngumálum fyrr og síðar.

Ennfremur eru teknar að birtast glaðlegar fréttir í fjölmiðlum um stóraukna umferð um Víkurskarð sem sé vel umfram umferðarspár við upphaf framkvæmdanna. Það eitt staðfesti nauðsyn og arðsemi ganganna og hreki rök þeirra úrtölumanna sem gagnrýndu áætlanir Norðamanna og það óðagot og tilfinningahita sem einkenndi allan aðdraganda málsins. Í frétt vísis.is í dag, 6. maí segir í þessum anda að umferð um Víkurskarð hafi stóraukist eftir hrun og að það stefni í að hún verði meiri en þegar ráðist var í gangagerðina. Það sem af er ári sé umferðin 25% meiri en var á sama tíma í fyrra og árið 2014 hafi hún verið 8,6% meiri en 2013. Ekkert lát sé á aukningu umferðar og verði áframhald á þessari miklu aukningu verði slegið nýtt met í umferðarmagni yfir skarðið. Síðan segir: „Núgildandi met var sett árið 2010 þegar um 1.250 bílar fóru um skarðið að meðaltali á degi hverjum. Þessi þróun er vel í samræmi við umferðarspá Vegagerðarinnar sem gerð var 2012,“ hefur vísir eftir Friðleifi Inga Brynjarssyni, sérfræðingi hjá Vegagerðinni sem heldur áfram: „Allt eins gæti farið svo að um 470 þúsund bifreiðar fari um Víkurskarðið á þessu ári sem er nokkru meira en spár gerðu ráð fyrir. Líklegasta spá gerði ráð fyrir um 1.230 bifreiðum á dag í ár en þessi umferðaraukning gæti skilað um 1.270 bifreiðum á sólarhring að meðaltali.“

En ekki allt sem sýnist. Því miður er það svo að þessar umferðartölur eru talsvert lægri en þær sem lagðar voru til grundvallar í þeim skýrslum og áætlunum sem notaðar voru til að koma Vaðlaheiðargöngum í gegn um þingið. Þær spár gerðu nefnilega ráð fyrir því að umferðin þarna yrði árið 2014 komin í 1632 bíla að meðaltali á sólahring en er nú árið 2015 komin í 1230. Hér skeikar tæpum 25%. Núverandi rauntölur eru þar með 4,5% undir því sem ætlað var 2011 og 2012. Staðan er því ekkert glæsileg fyrir utan þann jarð- og verkfræðilega vanda sem við blasir. Og hver segir að öll umferðin fari um göngin þegar eða ef þau verða einhverntíman opnuð fyrir umferð? Tímasparnaður af því að fara Vaðlaheiðargöng í stað Víkurskarðs verður 9 mínútur og leiðin styttist um 16 km. Bíll sem eyðir 12 lítrum á hundraðið fer með um 2 lítra af bensíni á þeirri vegalengd. Val bílstjórans stendur því um að spara rúmlega 440 kr. í bensínkostnaði á móti tvöfalt til þrefalt hærri upphæð fyrir að fara um göngin.

Sú gagnrýni sem sett var fram við upphaf framkvæmdanna eru því miður enn í fullu gildi að verulegu leyti og snertir nánast alla þætti undirbúningsins fyrir gangagerðina. Hún er þessi í mjög stuttu máli:

  • Þjóðhagsleg arðsemi er of lítil.
  • Mikil óvissa er enn um áætlaðan heildarkostnað.
  • Áætlaður umsjónar- og stjórnunarkostnaður er of lágur.
  • Áætlaður rekstrar- og viðhaldskostnaður er of lágur.
  • Áætlaður kostnaður við innheimtu veggjalda er of lágur.
  • Spá um umferðaraukningu á næstu árum er of há.
  • Greiðsluvilji vegfarenda er ofmetinn.
  • Fjárhæð veggjalda er of há.
  • Tekjur af veggjöldum munu ekki ná að standa undir öllum kostnaði.