Var þetta þá allt tóm vitleysa?

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur gefið út fyrstu bráðabirgðaskýrsluna um þau slys sem urðu á Toyotabílum vegna þess að inngjöfin festist í botni að sögn ökumannanna. Í 35 af 58 tilfellum sem rannsökuð hafa verið er niðurstaðan sú að ökumenn stigu aldrei á bremsuna. Svo virðist því sem ökumennirnir hafi ruglast á fetlum og stigið á bensínið í stað bremsunnar.

Ef marka má nýjustu fréttir af þessu máli virðist því sem öryggisstofnunin National Highway Traffic Safety Administration, hafi ekki tekist að finna neina efnislega eða rafræna galla í þeim bílum sem rannsakaðir hafa verið, sem gætu hafa orsakað þau slys sem bílarnir lentu í. Þetta mun vera tíundað í skýrslunni umræddu sem stofnunin sendi frá sér sl. mánudag.

Mjög mikið hefur verið fjallað um meinta galla í Toyotabílum í bandarískum fjölmiðlum einkanlega, undanfarna marga mánuði. Toyota innkallaði, aðallega vegna hins meinta galla í bensíngjöf, nærri níu milljón bíla um allan heim. Stærstur hluti innkölluðu bílanna var í Bandaríkjunum en allmargir bílar voru innkallaðir hér á landi sem og annarsstaðar í Evrópu til viðgerðar á bensíngjafarfetlinum. NHTSA fékk til úrvinnslu um þrjú þúsund frásagnir Toyotaökumanna sem lýstu því hvernig bensíngjöf bíla þeirra hafði orðið föst í botni og bíllinn orðið óviðráðanlegur og ætt áfram. Talið var að um það bil 90 dauðsföll í Bandaríkjunum mætti rekja til þessara bilana eða galla. En gerðist það svona?

NHTSA stofnunin er sá aðili í Bandaríkjunum sem rannsakar bíla eftir slys til að finna hugsanlega galla sem ollu slysinu. Hvað varðar Toyota þá er hægt að fara inn í stjórntölvu bílanna og kalla fram upplýsingar um hvað gerðist áður en slysið varð og á meðan það átti sér stað. Þótt stjórntölvur Toyotabílanna séu ekki byggðar eins og „svörtu kassarnir“ í flugvélum eru þær þó þannig gerðar að þær leita uppi villuboð og rangar skipanir og geyma í sér upplýsingar um þetta. Gallinn er bara sá að ef geymirinn er aftengdur þurrkast þessar upplýsingar út á sama hátt og þegar venjuleg tölva er tekin úr sambandi. Þá þarf sérstaka tækni og fagmenn til að endurheimta upplýsingar úr tölvunni.

Þegar slys verða er það ávallt vinnuregla vegna eldhættu, að aftengja geyma slysabílanna. Af þessum ástæðum kallaði NHTSA eftir sérstökum búnaði frá Toyota til að endurheimta gögn úr tölvum umræddra 58 slysabíla og niðurstaðan er sú að í aðdraganda 35 þessara slysa snerti ökumaðurin aldrei hemlafetilinn, í 14 tilfellum var aðeins tyllt lauslega á fetilinn, í einu tilfelli var stigið fast á hemlafetil og bensíngjöf samtímis.

Alls er NHTSA búin að rannsaka 4.000 bíla. Í engum þeirra hefur fundist galli í vélbúnaði eða hugbúnaði sem gæti hafa orsakað stjórnlausa eldsneytisinngjöf. Á hinn bóginn hafa fundist inngjafarfetlar sem bognað hafa eða skekkst og einnig hafa fundist tilfelli þar sem bensínfetlar hafa þvælst undir gólfmottur og orðið þar fastir í inngjöf. Þetta síðastnefnda var lagfært af Toyota í innkölluninni miklu.

 NHTSA hefur ekki neinar tilgátur uppi um að það sem raunverulega hafi gerst var kannski bara mistök ökumanna. Einungis er sagt að orsakarinnar sé enn leitað. Lokaskýrsla um málið er væntanleg á næsta ári.