Var VW sá eini sem svindlaði?

Undanfarin allmörg ár hefur fólksbíladísilvélin skotist fram úr bensínvélinni, einkum í Evrópu og í nokkrum Evrópuríkjum, t.d. Frakklandi, er svo komið að 80 prósent fólksbíla í daglegri umferð eru dísilbílar. Samhliða sístækkandi hlutfalli dísilbíla í umferð hefur þekking á skaðsemi NOx sambanda og sótagna í dísilútblæstri eflst og við því brugðist m.a. með hreinni gasolíu, bættri brennslu dísilvélanna til að minnka eyðsluna og virkari og betri útblásturshreinsibúnaði.

Endurbæturnar hefðu að öllu eðlilegu átt að leiða til minnkandi hlutfalls skaðlegra NOx sambanda og sótagna í andrúmsloftinu þrátt fyrir sístækkandi hlutfall dísilbíla í umferð. En reglulegar loftmælingar í stórborgum álfunnar sýna því miður annað. Frönsk stjórnvöld brugðust við fyrr á þessu ári með því að boða útrýmingu dísilvéla með því að skattleggja þær (og dísilolíuna) út af markaðinum í áföngum.

Þetta var talsvert löngu áður en upp komst um að Volkswagen hafði forritað dísilfólksbíla þannig að stjórntölva bílsins „fattaði“ þegar mæling á útblæstri hófst og virkjaði þá snarlega mengunarvarnarbúnaðinn en slökkti svo á honum aftur að mælingu lokinni. Og nú spyrja menn sig; var VW eini bílaframleiðandinn sem stundaði slíkt? Hátt hlutfall NOx og sótagnahlutfallið í andrúmslofti evrópsku stórborganna bendir til þess að þeir hafi verið fleiri.

KBA (Kraftfahrt-Bundesamt) sem er hin þýska umferðarstofa hóf þegar í september sl. að mengunarmæla aðrar tegundir dísilfólksbíla. Rannsókn KBA beinist að 50 gerðum dísilfólksbíla frá 23 framleiðendum. Meðal bílanna eru Volvo V60, Mercedes C-klass, Ford Focus, Jeep Cherokee, Honda CR-V, Renault Kadjar og Porsche Macan. Bílarnir voru valdir út frá skráningartölum í þýskri bifreiðaskrá og út frá „rökstuddum ábendingum utanaðkomandi aðila,“ eins og segir á heimasíðu KBA.