Vatnsrásir í malbiki valda áhyggjum

Eins og margir vegfarendur hafa tekið eftir er víða að finna rásir í malbikuðum stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu, en hætt er við að bílstjórar missi stjórn á bílum sínum þegar rásirnar fyllast af vatni og krapa í rigningar- og umhleypingatíð sem vænta má í haust og vetur.

Umhleypingar í veðri á þessum árstíma geta verið ökumönnum varasamar. Snögg veðraskipti, sér í lagir miklar haustrigningar geta skapað hættu í umferðinni, sér í lagi þar sem slitrásir hafa skapast í slitnu malbiki.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir í samtali við Morgunblaðið þetta ástand valda áhyggjum.

„Þetta er alls ekki viðunandi og ljóst að veghaldari getur með þessu aðgerðaleysi skapað sér skaðabótaskyldu. Það er þó kannski aukaatriði, því meginmálið er að tryggja öryggi vegfarenda og þetta er aðför að því sem og eignum þeirra, enda getur þetta skemmt ökutækin,“ segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið, spurður um viðbrögð við ástandi stofnvega á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er viðhaldsverkefum á stofnvegum höfuðborgarsvæðisins lokið, en það sem af er ári hefur malbik verið lagt á 65.936 fermetra sem samsvarar 16,3 km löngum vegi af breiddinni 3,6-4,2 metrar. Kostnaður vegna þessa nemur nú um 412 milljónum króna. Tekur Vegagerðin fram að þar sem lokauppgjör sé eftir muni heildarkostnaður hækka lítillega. Runólfur bendir á ábyrgð veghaldara varðandi viðhald og vegaskemmdir, en í tilviki stofnvega ber Vegagerðin ábyrgð sem slíkur.

„Veghaldari ber ábyrgð á að vegi sem opinn er almenningi sé haldið við með eðlilegum hætti og ef eitthvað bjátar á þá á veghaldari að gera úrbætur og sinna viðhaldi svo fljótt sem auðið er,“ segir Runólfur í samtalinu við Morgunblaðið og bætir því við að ekki sé alltaf hægt að bera því við að fjármagn skorti.

Í þessu samhengi bendir Runólfur á að séu bornar saman áætlaðar tekjur af bílum og umferð skv. fjárlögum þessa árs og spá um hvaða tekjum umferðin skili í ár, þá séu tekjurnar um þremur milljörðum króna meiri en ráð var fyrir gert. „Þetta er öryggisógn við vegfarendur og aðför að eigum almennings,“ segir Runólfur Ólafsson.