Vaxtalaus, óverðtryggð bílalán

Þau nýju lánakjör sem BL hóf að bjóða í síðustu viku hafa nú smitast yfir á önnur bílaumboð sem einnig eru tekin að bjóða upp á vaxtalaus bílalán í samvinnu við banka og lánastofnanir. Rétt fyrir nýliðna helgi kynntu bæði Askja og Brimborg um sín nýju lánakjör. Þá kynnti Bílabúð Benna um allt að 7 prósenta verðlækkun á nýjum bílum. Sala nýrra bíla á liðnu ári olli vonbrigðum þar sem hún reyndist undir væntingum. Endurnýjun bílaflotans er það hæg að meðalaldur bílaflotans á Íslandi hækkar stöðugt og er nú einn sá hæsti í Evrópu.

Lítilsháttar munur er á skilmálum þessara vaxtalausu bílalána en meginatriðin eru þó mjög þau sömu – þau að viðskiptavinur greiðir enga vexti né verðtryggingu á lánstímanum, ekkert þinglýsingargjald, ekkert lántökugjald, ekkert uppgreiðslugjald og ekkert seðilgjald. Munurinn felst fyrst og fremst í því hversu hátt hlutfall bílverðsins kaupandi þarf að greiða úr eigin vasa sem útborgun og eins til hvaða bílagerða nýju lánakjörin ná.

Hjá Öskju, sem býður upp á Mercedes og Kia bíla með þessum kjörum greiða viðskiptavinir 60% útborgun, annað hvort með reiðufé eða notuðum bíl, eða hvoru tveggja.  Allar gerðir bíla eru teknar upp í nýjan bíl og kaupandinn verður skráður eigandi bílsins en ekki lánsveitandinn. Það er skilyrði að bíllinn verði kaskótryggður meðan lánið hvílir á honum.

,,Við erum að mæta samkeppni á bílamarkaði og teljum að hér sé um að ræða áhugaverðan kost fyrir ákveðinn hóp viðskiptavina. Við hjá Öskju erum bjartsýn á góða bílasölu á þessu ári og vonumst til þess að markaðurinn haldi áfram að stækka,“ segir Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju um þessa lánanýjung, en Askja er í samtarfi við Ergo um þessi lán.

,,Greiðsla af láni er óbreytt allan tímann, nema viðskiptavinur kjósi að greiða inn á lánið, en þá lækkar greiðslubyrðin um leið. Ekkert uppgreiðslugjald fellur til, kjósi viðskiptavinur að greiða lánið upp fyrr,“ segir Jón Trausti Ólafsson.