Veðursæl verslunarmannahelgi á enda runnin

Verslunarmannahelgin 2012 er að nálgast endalok. Þegar þetta er ritað síðdegis á mánudeginum, frídegi verslunarmanna, hafa engin stórslys orðið og umferð tekin að þyngjast talsvert í átt til höfuðborgarsvæðisins. Vegaþjónustumenn FÍB sem verið hafa á ferðinni um stóran hluta landsins segja að umferðin hafi verið hófstillt um helgina og ökumenn velflestir athugulir og tillitssamir á vegunum.

Aðstoðar- og þjónustunet FÍB hefur verið þétt mjög undanfarna mánuði og vikur og það gerði stjórnstöð FÍB auðveldara um vik að bregðast skjótt við aðstoðarbeiðnum. Aðstoðarbeiðnir voru að vanda afar fjölbreyttar og áttu rætur í allt frá straumleysi, loftlausum hjólbörðum yfir í kranabílaaðstoðir vegna alvarlegra bilana eins og brotinna hjólalega, brostinna tímareima og úrbræddra véla.

Nokkur hluti hjálparbeiðna barst frá erlendum ferðamönnum um helgina, bæði félagsmönnum erlendra systurfélaga FÍB og annarra. FÍB aðstoðar félagsmenn systurfélaganna ef félag viðkomandi hjálparbeiðanda óskar eftir aðstoð fyrir sinn félagsmann. Greinilegt er að ýmsir erlendir aðilar, eins og tryggingafélög og klúbbar af ýmsu tagi hafa komist yfir símanúmer FÍB og sagt fólki að hringja bara í FÍB ef vanda ber að höndum á Íslandi.

FÍB fékk tvær þesskonar upphringingar frá fólki stöddu í vanda inni á hálendi um helgina. Annar hringjandinn vissi ekkert hvar hann var staddur, hafði engin staðarnöfn eða örnefni á takteinum en nefndi aðeins númer sem hann sagði vera númer vegarins sem hann væri á. Þetta númer reyndist bara ekki til.

Báðum þessum hjálparbeiðendum voru gefin upp símanúmer hjá bæði bílaþjónustuaðilum og lögreglu auk þess að vera bent á að hafa samband við þann aðila sem hafði „tryggt“ Íslandsför þeirra.

FÍB vill þakka öllum samstarfsaðilum sínum fyrir samvinnuna um þessa vel heppnuðu og veðursælu verslunarmannahelgi.