Vegaeftirlit eflt með nýjum hemlunarprófara

Lögregluembættin á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Vesturlandi, ásamt dómsmálaráðuneytinu, hafa nú fest kaup á hemlunarprófara til þess að efla eftirlit með hemlunarbúnaði.

Hemlabúnaður er sennilega einn mikilvægasti öryggisþáttur hvers ökutækis og um leið viðhaldsþáttur sem ekki má vanrækja.  

Hingað til hefur ekki verið mögulegt að skoða eða prófa hemlabúnað ökutækja við vegaskoðun öðruvísi en með sjónskoðun en takmarkað er hversu mikið slík skoðun leiðir í ljós.

Reglulegri skoðun ökutækja er mikilvæg til að tryggja að ökutæki sé í lögmæltu ástandi til þess að hætta af notkun þess verði sem minnst. 

Við rýni á skýrslum rannsóknarnefndar samgönguslysa hefur komið í ljós að oft á tíðum er hemlabúnaði áfátt sem og dekkjabúnaði og er oft orsakavaldur eða samverkandi þáttur þegar slys verða. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að ökutæki með vanbúna hemla séu á ferðinni.

Í gær kynntu lögregluliðin hemlunarprófarann með formlegum hætti á vigtunarplaninu við Blikadalsá á Kjalarnesi.