Vegagerðin tekur við rekstri Spalar

Stjórn Spalar ehf. hefur komist að samkomulagi við Vegagerðina um að hún taki við félaginu á aðalfundi Spalar sem boðað er til á Akranesi á morgun, miðvikudaginn 29. maí. Spölur átti og rak Hvalfjarðargöng þar til Vegagerðin tók við þeim 30. september 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Speli í morgun.

Fyrir hluthöfum Spalar liggur að fjalla um og afgreiða tillögu um að hlutafé félagsins verði fært úr 86 milljónum króna að nafnvirði niður í hálfa milljón króna. Verðbætt hlutafé verði greitt út og arður á hlutafé sömuleiðis í samræmi við samning Spalar við ríkið frá 1995.

Gangi þetta eftir tilnefnir Vegagerðin fulltrúa sína í öll stjórnarsæti Spalar á aðalfundinum. Í framhaldinu undirrita hluthafar yfirlýsingu um að þeir framselji Vegagerðinni eignarhluta sína án sérstakrar greiðslu eða krafna af neinu tagi á hendur henni.

Vegagerðin hefur verið hluthafi í Speli frá stofnun félagsins 25. janúar 1991 en verður sem sagt að öllum líkindum eini hluthafinn eftir aðalfund félagsins á morgun.

Hluthafar í Speli eru nú 45, þeir stærstu

  • Faxaflóahafnir 23,5%
  • Ríkissjóður Íslands 17,6%
  • Elkem Ísland 14,7%
  • Hvalfjarðarsveit 11,6%
  • Vegagerðin 11,6%
  • Akraneskaupstaður 8,7%.

Aðrir hluthafar eru fyrirtæki, félög og einstaklingar.

Útlit er fyrir að með Speli fylgi að minnsta kosti 120 milljónir króna í handbæru fé til Vegagerðarinnar eftir yfirtöku. Þar af telst hátt í helmingur upphæðarinnar ógreiddar kröfur viðskiptavina á félagið vegna inneigna á reikningum og veglykla og afsláttarmiða sem ekki hefur verið skilað.  Hinn hlutinn, 60-70 milljónir króna, eru fjármunir sem eftir verða hjá Speli þegar allur kostnaður félagsins hefur verið greiddur og hlutafé til eigenda sömuleiðis.

Um 4.400 veglyklum hefur ekki verið skilað og enn er talsvert útistandandi af afsláttarmiðum sem enn er unnt að skila til Spalar gegn endurgreiðslu.   

Í samningi Spalar við ríkið er ákvæði um að fjármunir sem eftir kunni að verða hjá félaginu í lokin skuli „renna til sérstakra verkefna í tengslum við rekstur Hvalfjarðarganga.“

Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, segir að þegar samningur um afhendingu Hvalfjarðarganga var undirritaður lá fyrir að greiða viðskiptavinum Spalar inneignir sínar. Það gekk vel en ennþá er samt allnokkuð útistandandi. Allir starfsmenn nema framkvæmdastjóri félagsins eru hættir störfum.

Fram kemur að við stjórn Spalar blasti að slíta félaginu eða ná samkomulagi við Vegagerðina um að taka við því. Sú niðurstaða að Vegagerðin taki við félaginu er í senn hagkvæm og rökrétt enda er það samningsbundið verkefni Vegagerðarinnar að ráðstafa þeim fjármunum sem Speli fylgja til óskilgreindra verkefna í Hvalfjarðargöngum.   

Breyting í hluthafahópi Spalar breytir engu um skuldbindingar félagsins gagnvart þeim sem enn eiga hjá því fjármuni vegna inneigna, veglykla eða afsláttarmiða. Ákveði Vegagerðin hins vegar að slíta félaginu verður auglýstur kröfulýsingarfrestur og tryggt er að allir fái kröfur sínar greiddar sem gefa sig fram áður en þeim fresti lýkur.