Vegakerfið laskað

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra birti hugleiðingu um vegamál á facebook heimasvæði sínu 29. desember 2018.  Fram kom hjá Sigurði að vegakerfið væri víða laskað og illa undirbúið fyrir stóraukinn umferðarþunga síðustu ára. Sigurður sagði að framlög til vegagerðar hefðu verið of lág og ekki haldist í hendur við aukið álag.

Sigurður fjallaði einnig um tekjur af ökutækjum og umferð.  Það er þekkt áróðursbragð af hálfu stjórnmálamanna að gera lítið úr skatttekjum af bílum og umferð og halda hluta skatta utan við samanburðinn.  Virðisaukaskattur er einn mikilvægasti skattstofn ríkisins.  Virðisaukaskattur af bifreiðum og rekstri bifreiða gefur ríkissjóði ríkulegar tekjur.  Þessar skatttekjur deilast út í heilbrigðiskerfið, tollgæslu, löggæslu ofl m.a. til að standa undir kostnaði við eftirlit og afleiðingar umferðarinnar.

Á línuriti sem fylgdi grein samgönguráðherra sést að skattar ríkisins af bílum hafa aukist jafnt og þétt á liðnum árum.  Það er vert að vekja athygli á því að hluti framlaga til Vegagerðarinnar rennur til ýmissa annarra verkefna en uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.   Vegagerðin sér m.a. um sjóvarnargarða, vita og hafnargerð.  Fjármunum af framlögum ríkissjóðs til Vegagerðarinnar er varið til að styrkja ferjur, sérleyfi, almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og innanlandsflug.  Á árinu 2017 runnu um 6,5 milljarðar króna af framlögum til Vegagerðarinnar til verkefna sem ekki eru hluti að uppbyggingu og viðhaldi vega.  Það árið fór einnig hátt í einn milljarður króna til að klára framkvæmdir við göng undir Húsavíkurhöfða, framkvæmd sem fór langt fram úr áætlunum.  Endanlegur kostnaður var um 4 milljaraðar króna. Vegurinn er lokaður til afnota fyrir aðra vegfarendur en þá sem eiga erindi til eða frá kísilverksmiðjunni á Bakka.  Bíleigendur um land allt borguðu framkvæmdina en mega ekki nota Bakka-veginn.  Þetta var og er undarleg opinber framkvæmd sem þjónar á engan hátt almennum vegfarendum. Kjörnir fulltrúar landsins samþykktu þessa framkvæmd á sama tíma og þeir líkt og allir landsmenn horfðu upp á skelfilegt niðurbrot vega vegna viðhaldsleysis. Niðurbrot sem er aðför að öryggi almennings og hefur valdið vegfarendum verulegu munatjóni. 

Graf innheimtir skattar og akstur

Fjármögnun stærri vegaframkvæmda með gjaldtöku hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu. Sumir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa viðrað að leggja þessa auknu skatta á almenning. Talsmenn  vegtolla kalla þetta notendagjald til að fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins.  Sigurður Ingi samgönguráðherra og ýmsir aðrir málsmetandi stjórnmálamenn sem fyrir skömmu voru andvígir vegtollum, telja væntanlega að notendagjald hljómi betur í eyrum kjósenda en vegtollur.  Framkomnar hugmyndir um vegtolla munu mismuna notendum eftir búsetu, gerð ökutækis og tíðni ferða.  Hugmyndirnar gera ráð fyrir því að þeir sem slíta vegum mest og menga mest borgi lægstu veggjöldin.  Á mannamáli er verið að boða miklar skattahækkanir sem er reynt að fela með orðhengilshætti. 

Eigendur einka- og fjölskyldubíla borga mun hærra skatta af eign og notkun bíla sinna en sem nemur samfélagslegum kostnaði við notkun þeirra s.s. vegna framlaga til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins, mengunar og heilbrigðiskerfisins.  Líklega er notkun einkabílsins eina samgönguformið sem borgar ríflega með sér til samneyslunnar.  Framlög til vega hafa verið langt undir skatttekjum hins opinbera af notkun ökutækja í mörg ár.  Eign og rekstur fjölskyldubílsins vegur lang þyngst í skattlagningu á umferðina en á sama tíma er það sú notkun sem vegur minnst í sliti á vegum og viðhaldi.