Vegatollahugmyndin afturgengin – enn einu sinni

Aftur og aftur kveða stjórnamálamenn og samtök þeirra, hvar svo sem þeir staðsetja sig á hinu pólití…
Aftur og aftur kveða stjórnamálamenn og samtök þeirra, hvar svo sem þeir staðsetja sig á hinu pólitíska litrófi, sönginn um einkaframkvæmd í vegbótum

,,Til þess að ráðast í þessar framkvæmdir verðum við að hugsa og framkvæma eftir nýjum leiðum því það er alveg ljóst að við fjármögnum þetta ekki með hefðbundnu ríkisframlagi. Ég mun fela starfshópi að móta þessar tillögur. Með nýrri sýn og nýrri nálgun í forgangsröðun framkvæmda á helstu stofnæðum út frá Reykjavík, skapast tækifæri til nýrrar forgangsröðunar verkefna á landsbyggðinni sem samgönguáætlun tekur til,“ sagði Jón Gunnarsson samgönguráðherra á morgunfundi um vega- og samgöngumál sem samtök fésýslsufyrirtækja héldu fyrr í vikunni.

Miklar umræður hafa skapast um þessi orð samgönguráðherra og greinilegt að mörgum hugnast það lítt að greiða sérstaklega fyrir. En það er fátt nýtt undir sólinni og það er ekki langt síðan stjórnmálamenn voru komnir á fremsta hlunn með þessar sömu gjaldtökuhugmyndir í sambandi við helstu þjóðleiðirnar út frá höfuðborginni til að fjármagna nýframkvæmdir og vegabætur á landsbyggðinni. Þá mótmæltu landsmenn kröftuglega og gerðu þessar hugmyndir afturreka. Rifjum þessa sögu upp: 

Aftur og aftur kveða stjórnamálamenn og samtök þeirra, hvar svo sem þeir staðsetja sig á hinu pólitíska litrófi, sönginn um einkaframkvæmd í vegbótum. Stofnuð skulu hlutafélög sem taka eiga framkvæmdafé að láni á ábyrgð ríkissjóðs en rukka svo vegfarendur um vegatolla í ofanálag við öll þau milljarða gjöld sem lögð eru á umferðina. Gamla hugmyndin frá 2010 sem svokallaðir félagshyggjuflokkar á alþingi stóðu að um að einkavæða helstu samgönguleiðirnar út frá höfuðborgarsvæðinu og byrgja það inni með vegatollamúr, gengur aftur ljósum logum.

Þá mótmælti FÍB því kröftuglega að þessi eignaupptaka á eigum almennings – þjóðvegunum - ætti sér stað. FÍB efndi til undirskriftasöfnunar á www.fib.is gegn þessum áformum. Hún var aldrei auglýst sérstaklega en viðbrögð almennings voru mjög sterk og skýr: Þegar söfnuninni lauk þann 11. janúar 2011 eftir einungis eina viku höfðu 41.500 atkvæðisbærra landsmanna mótmælt einkavæðingarhugmyndunum með því að undirrita eftirfarandi yfirlýsingu:

-Ég mótmæli hugmynd um vegatolla í ofanálag við ofurháa eldsneytis- og bifreiðaskatta!

Það voru ekki síst íbúar landsvæða sem fyrirhugaðir vegatollar kæmu einna þyngst niður á, sem brugðust harðast við. Þannig skrifuðu 32% kosningabærra manna á Selfossi undir mótmælin, 42% í Hveragerði, 31% í Reykjanesbæ, 28% í Grindavík, 25% í Mosfellsbæ, 38% á Kjalarnesi og 24% á Akranesi. Í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið að jafnaði tæplega 20% - og allur þessi fjöldi á aðeins einni viku. Þessi sterku viðbrögð almennings eru einsdæmi og sýndu glöggt hug fólks. Rétt er að minna á þetta nú þegar nýr ráðherra samgöngumála viðrar þessar sömu hugmyndir sex árum seinna. 

Gera má ráð fyrir því að á þessu ári innheimti ríkissjóður um 70 milljarða króna af bifreiðum og umferð. Væri helmingnum af því skattfé varið til viðhalds og nýframkvæmda í þjóðvegakerfinu, væri ekki ástæða til að kvarta. Hugmyndir sumra pólitíkusa ganga út frá því að einkavæða valda lykilkafla þjóðvegakerfisins og innheimta vegatolla fyrir akstur um þá í ofanálag við fyrrnefnda 70 milljarða. Út frá umferðartölum og markaðsforsendum eru þessir vegir nær eingöngu á suðvesturhorni landsins.  Hlutfallslegar tekjur ríkisins af bílum og umferð eru mestar á suðvesturhorninu og þar telur ráðherra í ríkisstjórninni sem er þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi eðlilegt að leggja á viðbótarálögur.

Þessar hugmyndir ganga í berhögg við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Það að taka nánast af handahófi einn og einn kafla af samhangandi og samstæðu þjóðvegakerfi á Íslandi út fyrir sviga og gera gjaldskyldan sérstaklega, er brot á grundvallarhugmyndinni um þjóðvegi ríkisins – samfélagsins. Hugmyndin um að sérstakt eignarfélag, hvaða nafni sem nefnist, ehf, ohf, sem byggi, eigi og reki með gjaldtöku valda lykilkafla í þjóðvegakerfi Íslands er ósættanleg mótsögn við grundvallarhugmyndina um samhangandi þjóðvegakerfi ríkisins í þágu allra byggða, í þágu allra landsmanna jafnt. Hvalfjarðargöng voru tekin út fyrir sviga á sínum tíma, nýframkvæmd og samgöngubót en ökumenn áttu eftir sem áður val um að aka veginn um Hvalfjörð.  Það að taka Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut undir umsjón nýrra samgöngufélaga er eignaupptaka frá borgurunum sem hafa borgað fyrir uppbyggingu þessara vega með bílasköttum sínum í áratugi.  Ef ætlunin er að breyta þessu, þá þarf að spyrja þjóðina fyrst. Það hefur ekki verið gert.

Oft er Noregur nefndur sem fyrirmynd varðandi þessar einkavæðingarhugmyndir.  Norðmenn eru að hverfa frá því fyrirkomulagi.  Aðkoma margra hálfopinberra félaga að uppbyggingu vegamannvirkja í Noregi hefur aukið verulega kostnað við framkvæmdirnar og rekstur þessara mannvirkja.  Vaxtakostnaður félaganna er umtalsvert hærri en kostnaður ríkisins.  Kostnaður vegna yfirstjórnar og reksturs er umtalsverður m.a. umsýsla vegna innheimtu vegagjalda.  Um er að ræða verulega aukin útgjöld vegfarenda vegna skorts á hagrænni hugsun í þágu heildarinnar.

Hér má sjá skýrslu um þessi mál frá NAF, systurfélagi FÍB í Noregi: 

Samgöngur á landi á Íslandi byggjast á því að samfélagið eigi vegina og hafi af þeim allan veg og vanda. Vegakerfið er þjóðvegakerfi. Gott vegakerfi er lykill að auknum hagvexti og viðhaldi byggða um allt land.  Ríkið hefur byggt það upp og rekur það á bæði samfélagslegum og hagfræðilegum forsendum.

Nýr starfshópur Jóns Gunnarssonar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála um nýjar leiðir í fjármögnun samgöngumannvirkja er væntanlega að fara af stað með vinnu sína.  Ekki hefur verið óskað aðkomu FÍB að því starfi.  FÍB eru frjáls hagsmunasamtök vegfarenda sem um 16 þúsund fjölskyldur eiga aðild að.  FÍB býður fram krafta sína og vonast eftir því að til félagsins verið leitað varðandi hugmyndavinnu um leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir.