Vegatollar á þýsku hraðbrautunum?

Þýskaland hefur alla tíð skorið sig úr öðrum Evrópuríkjum með það að innheimta ekki vegtolla fyrir akstur á hraðbrautum og fyrir það að leyfa ótakmarkaðan hámarkshraða á þeim þar sem aðstæður leyfa. En nú eru blikur á lofti með vegatollana. Hugmyndir eru uppi um að rukka veggjöld af akstri erlendra bíla.

Þýskaland er miðsvæðis á meginlandi álfunnar og á landamæri að mörgum ríkjum. Það þýðir það að það eru ekki bara Þjóðverjar sem nota þýsku hraðbrautirnar heldur líka mjög margir ferðalangar frá öðrum ríkjum. Það þýðir, sérstaklega á sumrin, að umferðin og álagið á hraðbrautirnar er mjög mikið og langar biðraðir myndast mjög víða auk þess sem vegirnir slitna hraðar og útlendingarnir taka engan þátt í viðhaldinu. Með það eru margir Þjóðverjar lítt kátir.

Kristilegi demókrataflokkurinn CSU hefur tekið málið upp og sett það sem skilyrði fyrir stuðningi við nýja ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara að erlendir ökumenn skuli greiða fyrir afnot af þýsku hraðbrautunum og peningarnir renni beint til viðhalds á hraðbrautunum. Þetta kann að hljóma mjög einfalt en vandinn er sá að samkvæmt lögum Evrópusambandsins er það vond latína að rukka aðeins annarra þjóða fólk um veggjöld sem heimamenn þurfa ekki að greiða.

En nú getur verið að lausn á þessum lagalega vanda sé fundin. Siim Kallas umferðar- og flutningakommissar Evrópusambandsins hefur nefnilega lagt það til að allir, hverrar þjóðar sem þeir eru, greiði vegatollana en heimamenn fái þá síðan til baka sem afslátt af bifreiðagjöldunum. Þetta er raunar svipað fyrirkomulag og viðhaft er í Austurríki. Þar kaupa ökumenn límmiða í framrúðu bíla sinna. Límmiðinn er staðfesting þess að hraðbrautagjald sé greitt.

Tillaga CSU gengur út á það að slíkur límmiði sem gildir í eitt ár skuli kosta 100 evrur eða um 16.500 ísl. kr. Límmiðar með styttri, en mislangan gildistíma verði ennfremur fáanlegir fyrir þá útlendinga sem leið eiga um Þýskaland.