Veggjöld aukin skattheimta á fjölskyldurnar í landinu

Það er langur vegur að halda að umræðunni um fyrirhuguð veggjöld sé lokið. Hér er á ferð stórmál með aukinni skattheimtu sem skiptir alla landsmenn máli. Skattar á bifreiðar eru nú þegar miklir og er því um verulega aukna skattheimtu að ræða nái samgönguáætlun stjórnvalda fram að ganga sem inniheldur m.a. að lögð verða veggjöld á allar leiðir inn og út úr höfuðborginni sem og víðar um landið einkum tengt umferð um jarðgöng.

Það er sterk andstaða við málið meðal almennings og einnig skiptast þingmenn í fylkingar sem og hjá fagaðilum sem málið varðar. Forsætisráðaherra lagði til að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar til 1. febrúar sem formenn allra flokka á Alþingi samþykktu. Þetta hitamál þarfnast mun meiri umræðu og ekki boðlegt að keyra það í gegnum þingið. Það er athyglisvert að verið er að renna þessum málum í gegnum Alþingi án þess að búið sé að sýna fram á kostnaðinn við uppsetningu og kostnað við myndavélabúnaðinn, rekstur og innheimtukostnað. Veggjöld bera 11% virðisaukaskatt. Veggjöld voru ekki á dagskrá fyrir síðustu kosningar, veggjöld eru ekki inni í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Uppsetning myndavéla í veghliðum hefur mikinn kostnað í för með sér

Uppsetning myndavéla í veghliðum mun hafa verulegan kostnað í för með sér. Þann 1. janúar 2016 var farið að innheimta svokallaðan þrengslaskatt af þeim sem aka inn í miðborg Stokkhólms. Markmiðið með þessum skatti er að draga úr umferð í miðborginni. Innheimtukerfið til þessarar skattheimtu með tækjabúnaði við helstu akstursleiðir inn og út úr kjarna Stokkhólms kostaði um 40 milljarða króna.

Allur þróunar- og umsýslukostnaður tengdur mögulegum vegtollum lendir á almennum notendum og þyngst á þeim sem minnst hafa umleikis. Það er langt í frá að allir kostnaðarliðir séu framkomnir. Það er lágmarkskrafa að vandað sé betur til allrar stjórnsýslu varðandi hugmyndina um vegtolla. Núverandi tillögur eru ómótaðar og nánast hent út í umræðuna án lýðræðislegrar aðkomu almennings. Í tillögunum er jafnræðissjónarmiðum og umhverfismarkmiðum kastað fyrir róða. Vegtollar eru nýr skattur á bíleigendur ofan á þá ofurskatta sem þegar eru lagðir á eign og rekstur heimilisbílsins.

Er ástæða til að treysta því að mögulegir vegtollar skili sér bara til vegaframkvæmda?

Sagan segir okkur það að allir skattir sem lagðir eru á eru aldrei teknir til baka þrátt fyrir loforð um annað. Til marks um það er bifreiðagjaldið sem fyrst var lagt á fyrir 30 árum og átti þá að vera til bráðabirgða í eitt ár til að fylla upp í fjárlagagat. Skatturinn er enn innheimtur og skilar tæpum 8 milljörðum króna upp úr vasa bíleigenda í ríkisjóð árlega. Einnig er ágætt að rifja upp að kolefnisgjald á bensín og dísilolíu var fyrst lagt á bíleigendur 2010. Það ár gaf gjaldið 1.000.000.000 krónur í ríkissjóð. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2019 er gert ráð fyrir að kolefnisgjald á eldsneyti skili í ríkissjóð 3.715.000.000 krónur. Höfum við ástæðu til að treysta því að mögulegir vegtollar skili sér bara til vegaframkvæmda? Sagan kennir okkur að það er fáum að treysta varðandi fögur orð um ráðstöfun skatttekna.

Á rúmu ári hefur afstaða margra stjórnmálamanna varðandi veggjöld nánast tekið u-beygju. Flestir flokkar, sem voru í framboði fyrir alþingskosningarnar 2017, lögðust gegn þessum hugmyndum eins kom fram í 2. tbl. FÍB-blaðsins 2017 nokkrum dögum fyrir kosningar. Framsóknarflokkurinn, sem fer með þennan málaflokk í núverandi ríkisstjórn, gekk hvað harðast gegn veggjöldum. Í svari hans kom fram að flokkurinn væri ekki hlynntur vegtollum. Þeir eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins. Þarna er um algjöra kúvendingu að ræða eins og kemur fram í afstöðu Sigurður Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, til málsins í dag.

Fram kom í máli Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í sjónvarpsþætti á Hringbraut hörð gagnrýni að ekki sé til kostnaðargreining á því hvað kosti að setja upp, innleiða og reka innheimtukerfi. Þar þurfi að líta til þátta eins og virðisaukaskatts veggjalda, innheimtuþóknunar, utanumhalds og rekstrarkostnaðar. Því sé alls óvíst hvað veggjöld muni gefa af sér í tekjur og hversu mikið innheimtan muni kosta neytendur.

FÍB hefur áhyggjur af þeim áformum að fara yfir í nýja skatta á fjölskyldurnar í landinu

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur áhyggjur af þeim áformum að fara yfir í nýja skatta á fjölskyldurnar í landinu og hefur fyrir sér í þeim efnum þær forsendur að nú þegar er verið innheimta af bílaeigendum 80 milljarða í formi skatta og gjalda. FÍB hefur tekið sérstaklega út þann hluta þessara skatta sem eru hrein notendagjöld, eldsneytisskattar, bifreiðagjaldið o.fl. sem bera ekki virðisaukaskatt en skila tæplega 40 milljörðum króna í ríkissjóð. Það væri eðlilegt að þessir fjármunir rynnu til framkvæmda við vegi landsins.