Vegna umræðu um útreikning bifreiðargjalda

Um áramót tóku gildi ný lög sem breyttu útreikningi bifreiðagjalda. Lögin gera ráð fyrir því að bifreiðagjald miðist við skráða losun koltvísýrings (co2) viðkomandi ökutækis. Liggi upplýsingar um skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis ekki fyrir er losunin ákvörðuð á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins.

Í tilfelli flestra nýlegra fólksbíla er losun koltvísýrings skráð í ökutækjaskrá, hins vegar er ákveðinn hluti fólksbíla, s.s. bíla sem eru eldri en 10 ára, ekki með skráða losun koltvísýrings í ökutækjaskrá. Eigendur þeirra ökutækja geta óskað eftir því við Umferðarstofu að kannað verði hvort upplýsingar um losun koltvísýrings séu fyrir hendi hjá stofnuninni. Vegna mikils álags á símkerfi Umferðarstofu er þeim sem óska eftir þessu bent á að senda tölvupóst á netfangið gagnaleit@us.is og rita skráningarnúmer ökutækisins í efnislínu (subject). Starfsmenn ökutækjasviðs Umferðarstofu munu svo fara yfir hvert mál fyrir sig og í framhaldi verða viðskiptavinir upplýstir um niðurstöðu.

Tekið skal þó fram að ef upplýsingar um losun koltvísýrings finnast þá verður það gildi að standa, samkvæmt lögunum, en í vissum tilfellum gæti slíkt orðið til þess að bifreiðagjöld viðkomandi hækki.

Ekki er hægt að afla upplýsinga um losun koltvísýrings fyrir ökutæki sem flutt hafa verið inn til landsins frá Bandaríkjum N-Ameríku, þ.a.l. er miðað við þyngd þeirra við útreikning bifreiðagjalda. Sama á við um sendibifreiðar, hópferðabíla og vörubifreiðar.