Vegtollamúr um Kaupmannahöfn

Samtök iðnaðarins í Danmörku hafa látið rannsaka og meta hvaða áhrif vegtollamúr umhverfis Kaupmannahöfn muni hafa. Niðurstaðan er sú að tollamúrinn muni hvorki draga úr loftmengun í borginni, né þrengslum að neinu marki sem munar um en verða dýr í bæði uppsetningu og rekstri.  Hugmyndin um tollamúrinn kom upp í tíð fyrri ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórn Helle Thorning Schmidt heldur fast við hana. FDM sem er systurfélag FÍB leggst alfarið gegn hugmyndinni.

Niðurstöður rannsóknar dönsku iðnaðarsamtakanna eru mjög samhljóða tvennum rannsóknum sem áður hafa verið gerðar og styðja því málflutning FDM: FDM hefur sagt hugmyndina óskiljanlega þar sem tollmúrinn muni hvorki draga úr umferðarþrengslum innan borgarinnar né mengun. Og þar sem ekki eigi að gefa umferð inn í og út úr borginni aðra valkosti en tollskyldar leiðir, sé með tollheimtunni ætlunin að hefja nýja og mjög dýra skattheimtu sem verja eigi til annars en samgangna, en muni fyrirsjáanlega fara að stórum hluta í stofn- og reksturskostnað tollkerfisins sjálfs.

Að mati FDM og nú einnig samtaka danska iðnaðarins mun það verða óhjákvæmilegur skaðlegur fylgifiskur þessarar nýju skattheimtu, að hún muni skerða hreyfanleika (mobilitet) fólks og rýra möguleika almennings og atvinnustarfsemi til að vaxa, þróast og breytast.
Sé yfirvöldum alvara með yfirlýsingum um að draga úr þrengslum á vegum og götum innan borgarinnar sé eðlilegra að gera það m.a. með virkari stjórnun umferðarflæðis og með sveigjanlegri vinnu- og frítíma. Og í stað þess að leggjast í víking gegn því fólki og fjölskyldum sem geta ekki án bíls verið, beri að huga betur að samræmingu milli samgöngukerfa eins og almannasamgangna; strætisvagna og lesta, einkabílanotkunar, hjólreiða og hjólreiðaleiða og gönguleiða.