Vegtollar, nei takk! - Ráðherra og ráðgjafar á villigötum

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda mótmælir harðlega hugmyndum starfshóps samgönguráðherra um vegatolla á meginvegi  út frá höfuðborgarsvæðinu og þar með auknum álögum á notkun fjölskyldubíla.

Þessar hugmyndir ganga þvert á jafnræðishugmyndir samfélagsins.  Það er óeðlilegt að bíleigendur sem sækja vinnu, nám eða þjónustu út frá og að höfuðborgarsvæðinu séu skattlagðir sérstaklega umfram aðra landsmenn.

http://www.fib.is/myndir/Runolfsfes.jpg
Runólfur Ólafsson.
http://www.fib.is/myndir/Steinthorsfes.jpg
Steinþór Jónsson.

Tillögur um tollavegi út frá höfuðborgarsvæðinu koma fram í kjölfar stóraukinna notkunarskatta á bíleigendur í formi hækkunar vörugjalda á bensín og dísilolíu, nýs kolefnisskatts og hækkunar virðisaukaskatts.  FÍB telur ranglátt að nauðsynlegum úrbótum í vegamálum á Suðvesturhorninu fylgi nýjar skattaálögur á íbúa svæðisins. Íbúar þessa landshluta leggja mest til vegasjóðs í formi notkunarskatta og hafa borgað margfaldlega á liðnum árum fyrir áætlaðar vegbætur og aukið öryggi á fjölförnustu og hættulegustu vegum landsins.   

Í desember 2008 tók ríkið um 74 krónur í skatt af hverjum bensínlítra en nú í apríl 2010 borga bíleigendur um 106 krónur á hvern lítra.  Hækkun bensínskatta á rúmu ári er því 32 krónur á hvern lítra eða 43,5%.  Yfir eitt ár er hækkunin um 60 þúsund krónur vegna reksturs meðal fjölskyldubíls.  Þessi hækkun skatta bætist við mun hærra heimsmarkaðsverð á bensíni og hækkun vegna gengisfalls íslensku krónunnar.    

Fyrir utan eldsneytisskatta borga bifreiðaeigendur 30 til 45% vörugjald af innfluttum fólksbílum plús 25.5% virðisaukaskatt á innkaupsverð og vörugjöld. Tvisvar á ári innheimtir ríkissjóður svokallað bifreiðagjald af bifreiðum landsmanna sem er eignaskattur lagður á miðað við þyngd ökutækja í kílógrömmum.  Bifreiðagjaldið var hækkaði um síðustu áramót um 10% og áætlað er að skatturinn skili um 5.660 m.kr. í ríkiskassann yfir árið. Bifreiðaeigendur borga ýmsa aðra skatta og gjöld s.s. eins og umferðaröryggisgjald og förgunargjald.  Hugmyndaauðgi skattayfirvalda er mikil þegar kemur að því á leggja auknar álögur á fjölskyldubílinn. Nýir og auknir skattar bitna verst á tekjulægri fjölskyldum og þeim sem þurfa að sækja nauðsynlega þjónustu um langan veg.  Bílaskattar eru þegar úr hófi og löngu mál að linni.

Áætla má að heildar skatttekjur ríkisins af eldsneytissköttum á bíla verði um 36 milljarðar króna í ár sem er 10 milljarða króna hækkun samanborið við skatttekjurnar á árinu 2008.  Samkvæmt fjárlögum er áætlað að verja um 9 milljörðum króna til nýframkvæmda og tæpum 4,7 milljörðum til viðhalds vega á yfirstandandi ári.  Árið 2009 runnu riflega 17 milljarðar til nýframkvæmda og 5,2 til viðhalds vega.  Samdráttur vegna nýframkvæmda og viðhalds vega er því um 8,5 milljarðar króna á milli ára.  Á sama tíma og bílaskattar hækka verulega á milli ára eru fjárframlög til vegamála um leið skorin verulega niður.

FÍB hafnar alfarið nýjum sköttum í formi vegtolla enda ganga þeir þvert á jafnræðis- og sanngirnissjónarmið auk þess sem nóg er komið af nýjum álögum á heimilin í landinu sem hafa þurft að taka á sig miklar umfram álögur í kjölfar efnahagshrunsins.  Þau þola einfaldlega ekki meir.