Vegurinn milli Reykjavíkur og Selfoss verði 2+1 vegur

Á fundi í Umferðarráði, þann 17. mars 2005, var einróma samþykkt að hvetja stjórnvöld til að breyta Suðurlandsvegi á milli Reykjavíkur og Selfoss í 2+1 veg með vegriði á milli akstursstefna. Í Svíþjóð og Noregi eru slík vegrið á  öllum nýjum og endurgerðum vegum þar sem 3500 bílum eða fleiri er ekið um að meðaltali á dag yfir árið. Ársdagsumferð á Suðurlandsvegi við Sandskeið var 6246 bílar árið 2003. Þar sem nú eru að hefjast framkvæmdir við hluta af þessum vegi, þ.e. í Svínahrauni, telur Umferðarráð  ekki forsvaranlegt vegna  öryggis vegfarenda annað en að þar verði þessi háttur hafður á og lagður þar 2+1 vegur með vegriði, s.s. víraleiðara sem skilur að umferð úr gagnstæðum áttum. Umferðarráð leggur þunga áherslu á að ákvörðun um lagningu hins nýja vegar í Svínahrauni verði breytt á þann hátt að þar verði vegrið á milli akstursátta. Annað er algjörlega óviðunandi að mati ráðsins.
Greinargerð:
 Allt frá því að undirbúningur hófst við gerð nýs vegar í Svínahrauni hafa talsmenn Umferðarráðs komið þeim sjónarmiðum á framfæri að þar beri að leggja svokallaðan 2+1 veg með vegriði á milli akstursstefna. Nýr vegur á þessum stað án vegriðs í miðju sé einfaldlega ekki forsvaranlegur og standist ekki nútímakröfur um umferðaröryggi.  Undir þessi sjónarmið er tekið í  nýlegri skýrslu Línuhönnunar fyrir Vegagerðina, sem unnin var af Haraldi Sigþórssyni og Bryndísi Friðriksdóttur. Þar segir m.a. að 2+1 lausn með víraleiðara hafi hærri fyrsta árs arðsemi en 2+1 lausn án víraleiðara og 2+2 lausn.  Miðdeilir með víraleiðara í 2+1 lausn skipti töluverðu máli. Ef ekki er notaður víraleiðari er ekki komið í veg fyrir framanáárekstra, en í dag eru þeir með dýrustu umferðaróhöppum á Vesturlands- og Suðurlandsvegi og oft mjög alvarleg.  Einnig segir í skýrslunni að búast megi við mun meiri aukningu umferðaröryggis við breytingu Suðurlandsvegar í 2+1 veg með víraleiðara, heldur en næst með breytingu Reykjanesbrautar í 2+2 veg.  Haraldur segir í grein um sama efni í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar (5.tbl. 2005):  ,,Látum ekki skammsýn stofnkostnaðarsjónarmið koma í veg fyrir aukið umferðaröryggi til framtíðar. “Næstum 2+1 vegur”, eins og fyrirhugað er að leggja á kafla á Hellisheiði er því ekki næstum því rétt lausn, heldur líklega einfaldlega röng lausn, að minnsta kosti í umferðaröryggislegu tilliti”.
Úr Skýrslu Línuhönnunar „Samanburður á 1+1, 2+1 og 2+2 vegum”, Vegagerðin janúar 2005.
The image “http://www.fib.is/myndir/Svinahrtafla.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Flokkur 1: umferðaróhöpp án meiðsla, en með eignatjóni
flokkur  2: umferðarslys með litlum meiðslum
flokkur  3: umferðarslys með miklum meiðslum
flokkur  4: banaslys