Vélarhitarinn – gleymdi umhverfisverndarinn

Nútímabíllinn mengar um það bil 71% minna  á fyrstu kílómetrunum  eftir gangsetningu sé hann með vél…
Nútímabíllinn mengar um það bil 71% minna á fyrstu kílómetrunum eftir gangsetningu sé hann með vélarhitara og hafi verið í sambandi við rafmagnsinnstungu áður. Þetta er staðreynd sem gleymist í rökræðum um umferðarmengun.

Fram að þessu hefur það verið viðtekin skoðun að bíll með vélarhitara sem hefur hitað upp bílinn fyrir gangsetningu, mengi 50% minna fyrstu 20 notkunarmínúturnar en bíll með óupphitaða vél. En nú alveg nýlega hefur finnska tæknirannsóknastofnunin VTT rannsakað málið og er niðurstaðan sú að mengunin er allt að 71% minni. Munurinn á forhituðum bíl og óupphituðum er sem sé ekkert smáræði.

Bílarnir sem rannsakaðir voru höfðu allir forhitunarkerfi af vönduðustu gerð, þ.e.a.s. hitaelement svipað og í hraðsuðukatli sem hitar upp kælivökvann í vélinni og miðstöðinni, rafmagns-hitablásara í innanrýminu og búnað sem hleður rafgeyminn. Þetta þrefalda rafhitunarkerfi er þannig forsenda 71% árangursins. Vélin, miðstöðin og innanrými bílsins eru upphitað þegar áður en bíllinn er ræstur að morgni og rafgeymirinn er fullhlaðinn. Notandinn sest inn í hlýjan bílinn, ekkert hrím eða ísing er á rúðunum og miklu minna af eldsneyti fer til spillis til þess eins að byggja upp varma og valda miklu meiri loftmengun en ella.

En fleira hangir á spýtunni: Þegar bíll stendur úti í vetrarkulda og er óupphitaður og ískaldur í gegn, virkar útblásturshvarfinn ekki lengi eftir ræsingu. Það þýðir að mengunarefnin í útblæstrinum losna „hrein og ómenguð“ út í andrúmsloftið meðan hvarfinn er enn kaldur og þetta á við um bæði bensín- og enn frekar um dísilbíla.

Mælingar á loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu sýna oft að mengun er umtalsverð, sérstaklega á kyrrlátum og frostköldum dögum. Þá verður gulbrún mengunarslikjan stundum vel sjáanleg og hún er sannarlega ekki holl fólki. Í löndunum sem við berum okkur helst saman við er brugðist við þessu með ýmsu móti eins og að takmarka bílaumferð og auka hlutfall rafbíla í umferð o.fl. En það væri ýmislegt fleira hægt að gera og eitt af því er að fjölga mjög vélarhiturum í bílum því að þeir einir og sér eru gríðarlega áhrifarík mengunarvörn. Það sýna niðurstöður VTT.

Ef við heimfærum niðurstöður VTT upp á Ísland og hugsum okkur að allir bílar í umferð væru með vélarhitarabúnað í notkun á kaldari helmingi ársins og að þeir væru þannig ræstir forhitaðir ca. 100 sinnum yfir árið, þá gæti CO2-losun frá umferðinni minnkað um kannski 12 þúsund tonn á ári og NOx sambönd um ca 62 tonn.

Fyrir um áratug gengust FÍB, Landsvirkjun, Landvernd og fleiri aðilar fyrir herferð sem hafði það markmið að fjölga vélarhiturum í bílum hér á landi. Leitað var eftir aðkomu opinberra aðila eins og sveitarfélaga og ríkis, ekki síst til að koma sem víðast upp raftenglum á bílastæðum og við byggingar en undirtektir urðu litlar. Hefðu undirtektir hins vegar orðið góðar væri rafbílavæðing áreiðanlega lengra á veg komin en hún er í dag þar sem aðgengi að hleðslutenglum væri mun víðtækara.