Velta í sölu nýrra bifreiða nam 121,3 milljörðum á síðasta ári

Það kennir ýmissa grasa þegar rýnt er í Árbók bílgreina sem var að koma út. Í bókinni koma fram staðreyndir sem fjalla um hinar ýmsu hliðar bílgreinanna. Hlutur bílgreina í landsframleiðslu var 1,6% árið 2016 og jókst þannig um 0,1% prósentustig frá árinu á undan.

Sé litið til annars samanburðar var hlutur hefðbundins landbúnaðar 1,1% og hlutur fiskvinnslu 2,7% á síðasta ári.

Heildarfjöldi nýrra skráðra bifreiða var 20.735 á árinu 2016 og hefur aldrei verið meiri. Um er að ræða 33% aukningu frá árinu á undan. Nýskráðir nýir fólksbílar voru 18.442 og nýir atvinnubílar voru 2.293 en í þeim hópi eru sendi- vöru- og hópbílar.

Ef fleiri staðreyndir eru skoðaðar kemur fram að velta bílgreina nam , að meðtöldum viðgerðum, sölu á varahlutum og aukabúnaði um 160 milljörðum á síðasta ári og nemur aukningin um 20% frá árinu 2015.

Velta í sölu nýrra bifreiða nam um 121,3 milljörðum en bílasala er umfangsmesti hluti bílgreinanna, eða um 76% af heildarveltu greinarinnar.