Verðlækkanir í kortunum – stjórnvöld hvött til að lækka skatta á eldsneyti

Miðað við stöðuna eins og hún er núna er líklegt að verðlækknair séu í kortunum. Hrár bens­ín­lítri á heims­markaði kost­ar um 110 krón­ur á Norður-Evr­ópu markaði. Í des­em­ber var meðal­verðið í kring­um 85 krón­ur. Þetta kemur fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, á mbl.is.

Miklar sveifl­ur hafa verið á heims­markaðsverði upp á síðkastið en hækk­an­ir ollu því að lítr­inn af bens­íni og díselol­íu náðu yfir 300 krón­um hér á landi þann ní­unda mars.

Eins og FÍB hefur greint frá gripu stjórnvöld á Írlandi til ráðs á dögunum að lækka tímabundið skatta á eldsneyti og nú hafa stjórnvöld í Svíþjóð farið að foræmi Íra og lækkað skatta á eldsneyti. Þá hafa stjórnvöld á Nýja Sjálandi ákveðið að lækkað skatta á eldsneyti til að draga úr áhrifum hækkandi eldsneytisverðs á almenning í landinu. Stjórnvöld í fleiri löndum íhuga að grípa til sömu aðgerða.

FÍB sendi áskorun til stjórnvalda í síðustu viku þar sem kallað er eftir að stjórnvöld dragi tímabundið úr skattheimtu á olíu til að koma í veg fyrir verðbólguskot og lágmarka skaðleg áhrif á þjóðlífið. Enn sem komið er bólar ekkert á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í þessum efnum.