Verðstríð hafið á eldsneytismarkaði

Óróleiki á markaði olíuvara skilaði sér í verðlækkunum á eldsneytisverði hér heima í gær og nú í morgun.  Undir kvöldmat í gær lækkuðu flest íslensku olíufélögin listaverðið á bensíni og dísilolíu.  N1 lækkaði bensínið mest eða um 3 krónur á lítra í gær og aftur um 2 krónur í morgun. 

Bensínlítrinn hjá N1 kostaði 236.90 krónur seinnipartinn í gær en var kominn í 231,90 krónur í morgun.  Orkan lækkaði í gær bensínlítrann um 1,50 krónur og aftur í morgun 1,40 krónur.  Atlantsolía lækkaði í gær um 2 krónur og um 1 krónu í morgun. 

Dísillítrinn var í 226.90 krónum hjá N1 undir kvöld í gær en lækkaði þá um 2,50 krónur og aftur um 2 krónur í morgun þannig að skráð listaverð á dísilolíu er núna 222,40 krónur. Önnur félög hafa lækkað minna.  Verðið á dísillítra hjá N1 er núna lægra en hjá Orkunni og ÓB en það sama og hjá Atlantsolíu.  Að óbreyttu má gera ráð fyrir að verðið haldi áfram að breytast í dag og vænta má viðbragða fljótlega frá Orkunni og Olís.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað hratt síðustu daga og vikur samhliða útbreiðslu kórónaveirunnar.  OPEC samtök margra stærri olíuframleiðsluríkja samþykktu að draga úr framleiðslu í síðustu viku til að mæta minnkandi eftirspurn.  OPEC náði ekki samkomulagi við Rússa um taka þátt í framleiðslusamdrættinum. 

Sádi-Arabía mætti þessu fálæti Rússa af hörku með því að auka framleiðslu sína sem skilaði sér í auknu framboði olíu á heimsmarkaði og mikilli verðlækkun.

Ofan á kóronaveiruna magnar verðstríðið á heimsmarkaði með olíu óróleika á fjármálamörkuðum.  Fjármálavefir eru farnir að kalla daginn í dag svarta mánudaginn og það áður en markaðir í Bandaríkjunum opna.