Verður Ísland nýtt olíuríki?

Á föstudaginn kemur, 4. janúar, verða undirritaðir talsvert sögulegir samningar milli norska ríkisfyrirtækisins Petoro AS og Íslands um olíuleit á  landgrunni Íslands norð-austur af landinu í átt að Jan Mayen.

Dagens Industri í Svíþjóð greinir frá þessu og segir undirritunina sögulega í tvennum skilningi: Þetta verði í fyrsta skiptið sem norska ríkið fer í olíuboranir utan eigin landgrunns. Og í öðru lagi geti þessi samvinna Noregs og Íslands leitt til þess að fjármálakreppan á Íslandi verði úr sögunni.

Talið er að stóran hluta þeirrrar jarðolíu sem eftir er í heiminum sé að finna undir hafsbotninum á norðurhvelinu og því getur verið eftir miklu að slægjast. Upplýsingafulltrúi Petoro AS vill þó ekki gera of mikið úr gróðavoninni og segir við DI að engin vissa sé um hversu mikla olíu sé þarna að finna fyrr en búið verður að bora.

Ríkisfyrirtækið Petoro AS var stofnað til að rannsaka og leita að olíu á norsku landgrunni eingöngu. En á grundvelli sérsamnings frá 1981 getur þetta ríkisfyrirtæki tekist á hendur olíuleit utan norskrar efnahagslögsögu og innan íslenskrar.