Verið að opna fyrir útflutning á notuðum bílum

http://www.fib.is/myndir/Bilafloti-2.jpg

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um endurgreiðslu á vörugjaldi og virðisaukaskatti af bílum sem fluttir eru úr landi. Hversu há fjárhæð verður endurgreidd af bíl eftir að hann hefur verið afskráður og fluttur úr landi fer fyrst og fremst eftir aldri hans.

Endurgreiðslan miðast við þá vörugjaldsfjárhæð sem  greidd var af bílnum þegar hann var upphaflega fluttur til landsins. Sú upphæð lækkar um 2 prósent miðað við hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðin eftir nýskráningu hans og 1,5 prósent fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það þar til 100 próseta fyrningu er náð. Endurgreiðsla virðisaukaskattsins verður með sama hætti samkvæmt frumvarpinu.

Með frumvarpinu er verið að leggja til tímabundnar breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalda af notuðum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi. Verulega hefur dregið úr sölu nýrra og notaðra bifreiða hérlendis á síðustu mánuðum og nú er svo komið að verulegur fjöldi ónotaðra ökutækja hefur safnast upp.

Frumvarpinu er ætlað að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi sem auka mun gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til skemmri tíma og ýta undir það að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný. Auk þess má reikna með að frumvarpið flýti fyrir fjölgun vistvænna ökutækja í umferðinni að því er segir í athugasemdum með frumvarpinu.