Versti váboði hnattrænnar hlýnunar?

Nefnd fræðimanna sem forseti Bandaríkjanna hefur skipað, hefur verið uppálagt að finna leiðir til að draga úr metanútblæstri frá nautpeningi með einhverju móti, hvort heldur það verði gert með breyttri fóðrun, pillum handa nautgripunum sem draga úr metanmyndun í meltingarfærum þeirra, rafeindabúnaði sem greinir þegar skepnan þarf að ropa, eða sekkjum eða tönkum sem festir verða við beljurnar til að safna metangasinu saman og hindra að það sleppi út í andrúmsloftið. Viðfangsefni þessarar nefndar hefur vinnuheitið Belja framtíðar (Cow of the Future). Financial Times og fleiri fréttamiðlar greina frá þessu.

http://fib.is/myndir/Metanbelja2.jpg
Metasekkur. Er þetta það sem koma skal
í kúabúskapnum?
http://fib.is/myndir/Metanbelja.jpg

Hin hnattræna hlýnun lofthjúps jarðar vegna mannlegra umsvifa hefur fyrst og fremst verið rakin til hverskonar brennslu eldsneytis. Við bruna verður nefnilega til kolefnisdíoxíð (CO2) og fleiri loftkennd efni sem fara út í andrúmsloftið og tefja fyrir því að sólarvarminn sleppi út úr gufuhvolfinu. Varminn safnast því upp undir þessu CO2 “gróðurhússþaki,” hitastig fer hækkandi og áhrifanna er tekið að gæta í breyttu veður- og gróðurfari jarðar. Metan telst allt að 34-falt öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og það er þess vegna sem alþjóðasáttmálar kveða á um að brenna því frekar en láta það sleppa út í andrúmsloftið óbrunnið.

Nautgripurinn verstur

Það eru ekki síst örverur sem mynda metan, t.d. á sorpurðunarstöðum og þar sem lífræn efni rotna en einnig í meltingarfærum nautgripa, einkum þegar þeir eru fóðraðir á maískorni. Nautgripir á fóðrum í USA eru um 88 milljónir og frá þeim kemur stærsti hluti þess metans sem sem fer út í andrúmsloftið í ríkinu – meiri en frá öllum sorpurðunarstöðum og landfyllingum og öllum lekum gas- og olíulindum til samans.

Ríkisstjórn Obama forseta kynnti í sl. mánuði áætlun um að hemja losun metans frá nautpeningnum út í andrúmsloftið og hafa um það samvinnu við hagsmunaaðila, bæði bændur og kjöt- og mjólkurvinnslustöðvar. Þróa skal hvers konar nýtækni í þessu skyni, bæði líffræðilega tækni og erfðatækni og hvers konar tæknibúnað, eins og gassöfnunartanka á kýrnar. Forstjóri samtaka mjólkuriðnaðarins sem tekur þátt í framtíðarbeljuverkefninu fagnar því að hagsmunaaðilar séu kallaðir að þessu verkefni og að ríkisstjórn Obama skuli hugleiða þessi mál á svipaðan hátt og hann og hans menn geri.

300 lítrar frá hverri kú

Hann vill jafnframt leiðrétta algengan misskilning um það úr hvorum enda beljunnar metanið rjúki út í andrúmsloftið. Hið rétta sé nefnilega að 97 prósent metansins komi út úr gini skepnunnar þegar hún ropar, en ekki afturendanum þegar hún fretar. Til að draga úr þessu sé gott að nautgripir búi við gott atlæti í rúmgóðum og loftgóðum húsum og fái hollt og meltanlegt fóður sem er lítt eða ekki metanmyndandi. “Við viljum að nautgripirnir verði heilbrigðari og gefi ríkulegar af sér afurðir. Við viljum vandræðalausar kýr,” sagði forstjórinn sem heitir Juan Tricarico.

Á óvart kemur hversu metanlosun er mikil frá kúm. Frá hverri kú koma nefnilega 250-300 lítrar af metani á dag. Það myndi duga til að knýja venjulegan fjölskyldubíl af millistærð allan liðlangan daginn ef mögulegt væri að safna því öllu saman í tank, sem er augljóslega erfitt og varla tæknilega né hagfræðilega mögulegt enn sem komið er. Talsmaður bandarískra umhverfissamtaka segir að sá sem finnur upp handhægan hagkvæman búnað til þess eigi eftir að verða stórríkur. Mikilvægara verkefni sé þó þegar til skemmri tíma er litið, sé að fækka nautgripum. Í sama streng tekur vísindamaður hjá opinberri þróunarsamvinnustofnun. Jonathan Gelbard að nafni: “Gleymdu kolunum og gleymdu bílunum,” segir hann við blm. Financial Times. “Fljótvirkasta leiðin til að takast á við hlýnunarvandann er að draga stórlega úr kjötáti fólks. Það er hins vegar hægara sagt en gert. Fólk er tregt til að breyta venjum sínum.”