Verstu bílarnir að mati huldumanns

Huldumaðurinn The Stig, dularfulli hvítklæddi aksturskappinn úr TopGear sem afhjúpaði nafn sitt og uppskar brottrekstur úr TopGear, hefur tekið saman lista yfir verstu bílana sem hann ók í þáttunum. Af fimm þessara afleitu bíla að mati kappakstursmannsins Ben Collins. sem er hið rétta nafn þessa fyrrum Stig-huldumanns, nefnir hann fyrst ofurbíllinn Alfa Romeo 8C Competizione. Sjá nánar hér.

Þótt þessi voldugi og dýri sportbíll sé  afar fallegur útlits eru bæði fjöðrun og hemlar fyrir neðan allar hellur. Hemlarnir náðu að flytja svo rækilega til jafnvægispunkt bílsins að hann í raun tók að stefna í kolranga átt.

Næstur til sögunnar er Fiat Multipla. Múltiplan er sannarlega enginn ofurbíll því hann var 12 sekúndur að ná fyrsta og eina hundraðinu og Ben Collins telur það fyrirlitlega frammistöðu enda þótt aksturseiginleikar bílsins hafi ekki verið afleitir. En ekki sé það gott að sá sem ekur þessum bíl líti út eins og fífl enda líkist Múltipla einna helst helst afkvæmi vanskapaðrar salamöndru og steypuhrærivélar.

Sá þriðji versti er að mati Collins Cadillac Escalade. Þetta ofvaxna ferlíki sem leyfi sér að kalla sig 4X4 sé með litaðar rúður sjálfsagt til að gagnast dópsölum til að dylja ljósfælnar athafnir sínar í aftursætinu. Farartækið svolgri í sig bensín í þéttbýlisakstri og þrátt fyrir að vera fjórhjóladrifinn jeppi komist það ekkert í torfærum. Þegar Collins ók honum út í drullufen skulfu og skókust í bílnum öll hjól og öxlar eins og ávaxtahlaup og bíllinn sat blýfastur. Síðar kom í ljós að rafmagnskaplar undir bílnum, sem festir voru við botninn með einangrunarbandi höfðu auðvitað losnað og slitnað og löfðu niður.

Annar bandarískur bíll; Dodge Charger (ekki þó nýjasta kynslóðin) er á þessum skammarlista kappakstursmannsins. Þetta er að sögn Collins bíll sem þjáist að ofþyngd og máttleysi og er með hræðilega sjálfskiptingu.

Þótt sportbílasmiðjan TVR sé nú farin á hausinn  nefnir Collins samt sportbílinn TVR Sagaris og segir hann einn alversta akstursbíl sem hann hafi keyrt.  Bíllinn sé hannaður þannig að hann eigi að kljúfa loftið sem best. Það hafi hins vegar algerlega mistekist því þegar hraðinn aukist taki bíllinn að skjálfa og nötra og leika á reiðiskjálfi. Engir hurðahúnar séu á bílnum og til að opna dyr þarf að ýta á takka undir útispeglinum og biðja síðan til Guðs að rafeindadraslið virki, sem það geri alls ekki alltaf. Sætin séu eins og þau séu uppfinning sirkusmannsins Houdini og maður eigi á hættu að fara úr axlarlið við að skipta um gír.

Þegar miklir og góðir akstursbílar eigi í hlut sé ágætt að vera laus við búnað eins og læsivarða ABS hemla og ESP stöðugleikakerfi. En í bíl með jafn ömurlega og vonda aksturseiginleika og TVR Sagaris sé hvorttveggja hrein lífsnauðsyn. Ben Collins segir að bíllinn sé alltof framþungur. Hann leggist hastarlega á fjaðrir undan beygjum og skrensar þegar minnst varir og að þess vegna hafi hann misst hann ítrekað útaf akstursbrautinni. „En það sem verra var, var það að Jeremy Clarkson var stórhrifinn af þessum bíl. Þarf ég að segja meir?“ skrifar Ben Collins.