Vertu til

Síðastliðið haust setti Umferðarstofa af stað verkefnið -Vertu til, sem er hugmyndasamkeppni nemenda í framhaldsskólum um fræðslu- og áróðursefni varðandi umferðaröryggi fyrir jafnaldra þeirra. Keppnin var haldin inni á Facebook síðu sem sett var upp.

Keppnin er hluti af umferðaröryggisáætlun stjórnvalda og sérstaklega til þess gerð að ná til ungra vegfarenda. Nemendur allra framhaldsskóla á landinu gátu tekið þátt í fjórum keppnisgreinum sem allar tengdust umferðaröryggi. Með þessu gafst einstakt tækifæri til að fá þennan aldurshóp til að leiða hugann að ábyrgð sinni í umferðinni og deila hugmyndum sínum og hugrenningum þar um til jafnaldra sinna.

Keppninni var skipt niður í fjóra efnisflokka:

Gerð vefsjónvarpsþáttar
Besta slagorðið
Besta ljósmyndin sem sýnir slysahættu
Besta vefkrækjan (linkurinn) sem tengist umferðaröryggi.

Nemendur fengu verðlaun að lokinni keppni hvers riðils en þeir voru samtals fjórir. Nýherji veitti höfundum bestu ljósmyndanna Canon EOS ljósmyndavélar. Höfundar bestu slagorðanna í undankeppninni fengu Ipad2 spjaldtölvu frá Epli og þeir nemendur sem settu bestu vefkrækjuna inn á facebook síðuna fengu veglega gjafakörfu frá Ölgerðinni.

http://www.fib.is/myndir/Keyrd-nidur.jpg

Forseti Íslands veitti í gær úrslitaverðlaun allra riðla fyrir bestu ljósmyndina, besta slagorðið og besta skólann en ekki voru veitt úrslitaverðlaun fyrir vefmyndbandið né vefkrækjuna heldur var þess í stað valinn besti skólinn.

Sindri Benediktsson nemandi í MH bar sigur úr býtum fyrir ljósmyndina –Þetta er í raun glæpur- sem sjá má hér til hliðar.

Að mati Umferðarstofu ber ljósmynd Sindra góðri hugmynd og þekkingu á ljósmyndatækni gott vitni. Það er sérlega eftirtektarvert að Sindri undirstrikar í þessari mynd það viðhorf að áhættuhegðun í umferðinni sem leiðir til líkamstjóns eða dauða sé í raun glæpur. Þetta gerir höfundur með því að setja í götuna teikningu af fórnarlambi umferðarslyss líkt og lögregla gerir á vettvangi morðs. 

Camilla Margrét B. Thomsen nemandi í Kvennaskólanum sigraði í keppninni um besta slagorðið. Slagorð hennar er -Mættu frekar seinna en aldrei.-

Fjöldi góðra tillagna og hugmynda komu fram frá nemendum hvaðanæva af landinu en slagorðið Camillu Margrétar var að mati Umferðarstofu best. Þarna leikur höfundur sér að orðatiltæki sem óstundvísir nota sér oft til huggunar og afsökunar. Þótt ekki sé mælt með óstundvísi þá eru afleiðingar hennar án efa áhættuminni en hraðakstur.

Menntaskólinn við Hamrahlíð hlaut viðurkenningu sem besti skólinn og tók Sverrir Páll Sverrisson varaformaður nemendafélags skólans við viðurkenningunni. Menntaskólinn við Hamrahlíð hlaut sérstaka viðurkenningu frá Reykjavíkurborg en að öðrum ólöstuðum þóttu nemendur skólans sýna sérlega mikinn áhuga á keppninni og frá nemendum MH komu fram mjög góðar og margar hugmyndir.