Vetnið er ekki lausnin

http://www.fib.is/myndir/Bossel.jpg

Dr. Ulf Bossel forstöðumaður European Fuel Cell Forum í Sviss, sem þátt tók í ráðstefnunni Vistvæn orka í samgöngum sem lýkur í dag, sagði í samtali við Láru Ómarsdóttur frettamann á Stöð 2 í gær að vetni yrði aldrei það eldsneyti sem tekur við af olíunni og olíuafurðum. Miðað við núverandi olíuverð yrði eldsneytisþátturinn í rekstri samgöngutækjanna minnst fjórfalt dýrari. Rafmagnið sjálft væri hins vegar líklegasti aflgfjafi samgöngutækja í framtíðinni.

Algengasta aðferðin við að framleiða vetni er að greina vetnið úr vatni með rafgreiningu. Vetninu er svo safnað á geyma og hlaðið inn á vetnisgeyma bíla og farartækja. Þetta er sú aðferð sem notuð er í vetnisstöðinni sem staðsett er á lóð bensínstöðvar Skeljungs við Vesturlandsveg í Reykjavík þar sem vetni var fyllt á vetnisstrætisvagnana sem hér voru í notkun þar til nýlega.

Í vetnisstrætisvögnunum og flestum öðrum vetnisbílum sem hér höfðu viðkomu meðan á vetnistilraunaverkefninu stóð fór svo vetnið í gegnum efnarafal sem breytti því aftur í rafmagn. Dr Ulf Bossel sagði að á þessu ferli öllu, það er að segja frá rafmagni yfir í vetni og aftur yfir í rafmagn tapaðist um 75% orkunnar. Einungis 25% þeirrar orku sem fer í að framleiða vetnið nýtist í vetnisknúnu farartækjunum.

Mjög miklar framfarir hafa að undanförnu orðið í framleiðslu rafgeyma og eins og greint er frá í næstu frétt á undan þessari, þá eru þegar komnir fram mjög aflmiklir rafbílar sem komast hátt í 400 kílómetra á einni rafhleðslu og einungir fjóra tíma tekur að fullhlaða á ný. Á þessari stundu bendir því flest til að það sé rétt hjá dr. Bossel að rafmagnið sé framtíðarorkugjafi fyrir bílana en vetnið tæplega.