Vetnismeðhöndluð lífolía

Olíufélagið Olís kynnti á dögunum nýja íblöndun í dísilolíu. Olían verður framvegis blönduð vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu- VLO. Íblöndunin er sögð ekki hafa nein áhrif til aukinnar eyðslu dísilbíla né að hún skaði vélar og olíuverk. Ekkert þurfi að stilla vélar sérstaklega fyrir VLO olíuna og engin hætta sé á vandamálum, jafnvel ekki þótt VLO olía sé notuð hrein og óblönduð á dísilvélar.

Hin nýja blandaða olía nefnist VLO dísel og dregur nafn sitt af hinni vetnismeðhöndluðu olíu. Sjálf VLO íblöndunarolían kemur frá finnska olíufyrirtækinu Neste Oil og er henni blandað saman við dísilolíuna um leið og henni er dælt úr geymum birgðastöðva inn á tankbílana sem dreifa eldsneytinu til afgreiðslustöðvanna. Blöndunarhlutfallið er í samræmi við Evrópureglur um íblöndun lífeldsneytis og er sögð hafa þau ein áhrif að CO2 útblástur minnki um 5%.

Þessi íblöndun lífrænnar olíu saman við dísilolíu sem unnin er úr jarðolíu er í samræmi við þá stefnu Evrópusambandsins og hins evrópska efnahagssvæðis að auka hlut lífræns eldsneytis og annarra endurnýjanlegra orkugjafa fyrir samgöngur, ekki síst í því skyni að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

Ómar Ragnarsson dældi (svona formlega séð) fyrstu áfyllingunni af VLO dísil á bíl. (Sjá mynd). Á Facebook síðu sinni segir hann þetta um málið:  „Rétt eins og þegar ég ók í fyrsta sinn á metanknúnum bíl í kringum landið kynnti ég mér þetta mál fyrirfram og tók þetta að mér af því að ég styð öll skref í átt til minni og umhverfismildari notkunar á jarðefnaeldsneyti.“