Vetrardekkin 2009

Margir eru að huga að því að kaupa vetrardekk núna og þeir sem eru hvað aðgætnastir og passasamastir líta í kring um sig, skoða hvað er í boði og lesa síðan dekkjakannanir frá grannlöndunum. Talsvert hefur verið haft samband við FÍB af fólki sem leitar ráða hjá félaginu um hvað er best, öruggast, slitsterkast og hagkvæmast. Hvað eru bestu vetrardekkin sem fást á Íslandi nú í miðri kreppunni? En hvernig stendur þá á því að mismunandi dekk eru í efstu sætum þeirra kannana sem nú eru að birtast í evrópskum bílablöðum?

 Svarið er eiginlega þetta:

http://www.fib.is/myndir/Benz-skrens.jpg
Góð vetrardekk skipta miklu máli.

Lang stærsta og viðamesta vetrardekkjakönnunin í Evrópu er gerð norður í Lapplandi af finnsku fyrirtæki sem heitir Test World. Fyrirtækið þaulprófar dekkin við allar helstu vetraraðstæður og til að fá sem marktækasta niðurstöðu er leitast við að hafa sérhverja prófunarþraut eins nálægt því að vera eins fyrir allar dekkjategundirnar og –gerðirnar eins og kostur er. Hröðun, hemlun og veggrip er prófað í snjó, á ís, á blautu vegyfirborði og þurru og þess gætt að í hverjum prófunarþætti gangi eitt og hið sama yfir öll dekkin og þess gætt að allar mælingar séu sem nákvæmastar. Reynsluökumenn Test World eru þrautreyndir í þessu og þekktir fyrir vönduð og framúrskarandi vinnubrögð og hlutlægni.

Kaupendur þessarar könnunar Test World eru m.a. flest stærstu bílatímaritin í Austur og Vestur Evrópu og systurfélög FÍB. Og nú hlýtur fólk að spyrja hvernig á því standi þá að ekki sé sama dekkið efst hjá öllum kaupendum könnunarinnar? Af hverju er Michelin X-Ice X12 efst hjá Aftonbladet í flokki ónegldra vetrardekkja,, Continental Viking Contact hjá Auto Motor & Sport og Nokian Hakkapeliitta 7 og tvö önnur efst og jöfn að stigum hjá bílatímaritinum Vi Bilagare svo dæmi sé tekið af sænskum bílatímaritum. Og hvernig stendur á því að hjá Motor, blaði systurfélags FÍB í Noregi er Nokian Hakkapeliitta í efsta sætinu og eitthvað allt annað dekki hjá hinum þýska systurklúbbi FÍB, sjálfu ADAC.

 Því er til að svara að allir fá þessir kaupendur könnunarinnar mælinganiðurstöður frá Finnunum norður í Lapplandi. Þeim er síðan í sjálfsvald sett hvernig þeir reikna út stigin og hversu hátt þeir vega einstakar mæliniðurstöður inn í heildarútkomuna. Ástæðan er auðvitað sú að vetraraðstæður eru mismunandi í Evrópu. Þær eru allt aðrar t.d. í Mið- og Suður Þýskalandi en víðast hvar í Noregi og það er munur á vetrarveðráttu á Íslandi og á Stokkhólmssvæðinu í Svíþjóð, hvað þá austur í Moskvu. Þá eru negld vetrardekk ekki leyfð sumsstaðar í Evrópu eða leyfð með ýmsum takmörkunum.

Svo nefnt sé dæmi þá eru vetur oft votviðrasamir í Norður- og Mið-Þýskalandi. Þessvegna leggja Þjóðverjar mikið upp úr því að dekk séu stöðug og örugg á blautum vegum, þau ryðji vel frá sér vatni og fljóti ekki svo glatt upp, sem auðvitað væri hreint ekki gott á 150-200 km hraða úti á þýskri hraðbraut. Þess vegna gefa blaðamennirnir hjá ADAC Motorwelt þessum prófunarþætti mikið vægi. Í Danmörku og Noregi keyra menn hægar og þessi þáttur er því ekki alveg eins mikilvægur. En þar verður oft flughált af völdum ísingar. Því hefur þættir eins og veggrip, hröðun og hemlun á ís meira vægi þar.

Í næsta blaði, sem kemur út um miðjan nóvember, verður árleg vetrardekkjakönnun FÍB birt. Hún er að meginhluta til fengin frá NAF, hinum norska systurklúbbi FÍB. Ástæða þess að við hjá FÍB fáum útreikninga og niðurstöður Norðmannanna er sú að vetraraðstæður þeirra eru einna líkastar okkar vetraraðstæðum. Hér snjóar og skefur eins og þar, hér myndast oft flughál ísing á vegum.

Hér á eftir má sjá hvaða dekk það eru sem verma efstu sætin hjá nokkrum sænskum bílamiðlum:

VETRARDEKK – ónegld:

Aftonbladet
: 1. Michelin X-Ice X12
  2. Nokian Hakkapeliitta R  
3. Yokohama Ice Guard ig30
  4. Continental Conti Viking Contact 5
 

AutoMotor&Sport   1. Continental Conti Viking Contact 5
  2. Michelin X-Ice 2  
3. Nokian Hakkapeliitta R  
4. Bridgestone Blizzak Nordic
 

Motorföraren   1. Continental Conti Viking Contact 5  
2. Bridgestone Blizzak  3. Falken EPZ  
4. Michelin X-ICE 2
 

Teknikens Värld   1.  Continental Conti Winter Contact TS830  2. Continental Conti Winter Viking 5
 

Vi Bilagare      1.  Nokian Hakkapeliita R, Michelin X-Ice og Continetal Conti Winter VikingContact (Öll þrjúmeð sama stigafjölda)

VETRARDEKK - negld

Aftonbladet    1. Michelin X-Ice North XIN2
  2. Nokian Hakkapeliitta 7
   3. Continental Conti Winter Viking 2
  4. Pirelli Winter Carving Edge
 

Motorföraren    1. Gislaved Nord Frost 5  
2. Michelin X-Ice North 2  
3. Nokian Hakkapeliitta 7
  4. Bridgestone Noranza 2
 

Teknikens Värld    1. Continental Conti Winter Viking 2  2. Michelin X-Ice North
 

Vi Bilägare   1. Nokian Hakkapeliita 7, Pirelli Carvin Edge, Gislaved Nord Frost 5, Continental Conti Winter Viking 2
 (Öll með sömu stigatölu)