,,Við erum að horfa á miklar breytingar í samgöngum og samgöngutækni“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir  að horfa þyrfti til langtímastefnumótunar varðandi orkuskipti í samgöngum, en þetta kemur fram í viðtali við Runólf við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvort sá möguleiki sé fyrir hendi hér á landi að segja skilið við notkun jarðefnaeldsneytis í bifreiðum. Yfirvöld í Bretlandi og Frakklandi hafa á síðustu vikum tilkynnt að þau muni banna sölu á bensín- og dísilbílum frá og með árinu 2040.

Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Runólfur ennfremur að þróunin er jákvæð og ör í bifreiðageiranum um þessar mundir.

,,Við erum líka að horfa á miklar breytingar í samgöngum og samgöngutækni,“ segir Runólfur. Hann segir að í augnablikinu þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af notkun bensín- og dísilbíla hér á landi. Hann á þó von á að rafbílum muni fjölga verulega hér á næstu árum,“ segir Runólfur við Morgunblaðið.

Runólfur bendir á að sniðugt væri að fylgja skrefum Norðmanna í stefnumálum til rafbílavæðingar.

 „Þar hafa stjórnvöld markað þessa stefnu vel og reynt að sjá málið frá öllum hliðum og það er nokkuð sem væri mjög jákvætt að sjá innleitt hér.“

Spurður hvort hár aldur bílaflota Íslendinga geti leikið hlutverk þegar kemur að því að skipta yfir í græna orku segir Runólfur tækifærin vissulega fyrir hendi. Kaup á raf- og tvinnbílum hafi aukist á síðustu misserum. Grundvallaratriði sé þó að stjórnvöld marki skýra stefnu í málum sem þessum, að sögn Runólfs. „Við þurfum að hugsa aðeins lengra en til næsta árs. Það er nokkuð sem við verðum að læra af þjóðunum í kringum okkur,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í samtalinu við Morgunblaðið.